
Það er hefur líklega ekki farið framhjá mörgum sem skoða síðuna mína að ég elska marsípan! Kransakökur eru eitt af því besta sem ég fæ og frá því ég var barn leitaði ég uppi kransakökustykki í bakaríum.

Ég sá þessa hugmynd af kransakökustaf hjá 17 Sortum og gat ekki setið á mér að prófa að útbúa svona sjálf. Þetta var alls ekki flókið og er tilvalið í útskriftina, ferminguna eða brúðkaupið.

Í Danmörku eru til dæmis kransakökur mikið notaðar sem brúðartertur og mér finnst auðvitað að við Íslendingar mættum taka það upp, hahahaha, eða helst hafa bara bæði brúðartertu og kransaköku!

Elín Heiða dóttir mín valdi auðvitað að ég myndi útbúa E en það er í raun hægt að gera hvaða staf sem er því auðvelt er að beygja marsípanið eftir kælingu og rúllun. Ég teiknaði stafinn á bökunarpappír og tók hann síðan í gegn á næsta bökunarpappír til þess að geta gert tvo eins til að setja ofan á hvorn annan.

Ég hafði lengjurnar um 2 cm þykkar í þvermál og mældi 1 x 30 cm, 2 x 20 cm og 1 x 15 cm lengjur fyrir E. Síðan fyllti ég upp í bilið sem myndaðist með smá marsípani og þetta er í raun bara eins og að leira, þjappa og strjúka með fingrinum þar til marsípanið aðlagast og sléttist.

Kransakökustafur
Stafur
- 750 g Odense Marcipan
- 375 g sykur
- 1 eggjahvíta
- Setjið marsípan og sykur saman í hrærivélina og hnoðið með K-inu þar til það fer að þéttast, bætið þá eggjahvítunni saman við og blandið áfram.
- Takið úr vélinni og hnoðið í höndunum þar til vel samlagað og þétt kúla hefur myndast.
- Plastið kúluna vel og kælið í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
- Skiptið marsípaninu til helminga (fyrir 2 eins stafi), rúllið út jafnar lengjur, um 2 cm í þvermál og þrýstið miðjunni aðeins upp með fingrunum til að mynda milt þríhyrningslaga form úr lengjunum.
- Teiknið staf á bökunarpappír x 2 og mótið lengjurnar eftir þeirri teikningu. Fyrir E mældi ég út 30 cm, 2 x 20 cm og 15 cm lengjur fyrir hvorn staf.
- Bakið við 200° í um 13 mínútur eða þar til stafirnir fara að dökkna.
- Kælið þá næst vel og sprautið síðan glassúr á þá, staflið þeim ofan á hvorn annan og skreytið með blómum, makkarónum eða öðru sem hugurinn girnist. Gott er að nota glassúrinn til að „líma“ skrautið á.
Glassúr
- 1 eggjahvíta (40 g)
- 200 g flórsykur
- ½ tsk. sítrónusafi
- Setjið allt saman í hrærivélina og þeytið vel saman.
- Notið örmjóan hringlaga stút eða klippið lítið gat á sterkan poka og sprautið glassúr á annan stafinn, lyftið næsta upp á og endurtakið.
- Gott er að leyfa glassúrnum að harðna áður en hafist er handa við skreytinguna.

Falleg og skemmtileg tilbreyting frá hinni hefðbundnu kransaköku en alveg sama uppskriftin.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM