Einsi kaldi veitingastaður



Matarupplifun

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt þegar kemur að skemmtilegri upplifun. Við fórum í haustferð til Vestmannaeyja á dögunum og heimsóttum dásamlega veitingastaði, söfn og höfðum það huggulegt með vinum okkar eina helgi. Við segjum að þetta hafi verið eins og að skreppa til útlanda þar sem það þarf jú að yfirgefa meginlandið til að komast á þessa dásamlegu eyju.

Vestmannaeyjar veitingastaður

Hér á eftir kemur umfjöllun um frábæran veitingastað þar sem við snæddum dýrindis kvöldverð á. Staðurinn heitir Einsi kaldi og er til húsa á jarðhæð Hótel Vestmannaeyja.

Einar (Einsi kaldi) tók sjálfur á móti okkur í upphafi kvölds og stjanaði við okkur ásamt sínu frábæra teymi. Staðurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2011 og sér Einar og hans fólk einnig um ýmiss konar veisluþjónustu fyrir bæjarbúa til viðbótar við rekstur veitingastaðarins. Það er því ekki hægt að segja að Vestmanneyjinga skorti góðar veitingar og veitingastaði heldur þvert á móti.

Vestmannaeyjar veitingastaður
Hreindýra carpaccio og humarrúlla

Við prófuðum ýmislegt af matseðlinum þar sem erfitt var að velja milli girnilegra rétta og þeir voru hver öðrum betri. Hér fyrir ofan má sjá dýrindis hreindýra carpaccio og humarrúllu og hér fyrir neðan koma fleiri myndir af hluta veitinganna. Þetta var svo góð máltíð að mér finnst erfitt að skrifa þennan texta hér á mánudagskvöldi þar sem ég væri til í að fá heimsendingu á þessu öllu saman í einum grænum takk!

Vestmannaeyjar veitingastaður
New style Humarloka

Þessi humarloka var alveg sjúlluð og ég þarf nú að heyra aðeins betur í honum Einari og kanna hvort það sé hægt að fá þessa uppskrift aðeins betur útlistaða til að færa ykkur hana mögulega í formi uppskriftar á silfurfati til að spreyta ykkur.

Einsi Kaldi veitingastaður
Nautalund

Hér er auðvitað bara akkúrat ekkert sem getur klikkað!

Vestmannaeyjar veitingastaður
Skötuselur og reykýsu-bygg

Namm! Hvað er betra en nýveiddur fiskur í Vestmannaeyjum. Get sagt ykkur svarið…..ekkert!

Vestmannaeyjar veitingastaður
Okkar B.B.Q. svínarif

Unglingarnir fóru öruggu leiðina og gaf hún ekkert eftir frekar en nokkuð annað á þessum frábæra stað.

Vestmannaeyjar veitingastaður
Barnamatseðill: Kjúklingur í raspi Krullufranskar og tómatsósa

Litlir gormar vilja eitthvað einfalt og helst tómatsósu með öllu svo þetta rann ljúflega niður hjá einni 2ja ára snót.

Einsi Kaldi veitingastaður

Þegar maður fer til „útlanda“ er líka splæst í kokteila og þessi klikkaði svo sannarlega ekki.

Andrúmsloftið á Einsa kalda er huggulegt og kósý. Ef þið viljið gera vel við ykkur mæli ég sannarlega með kvöldverði á þessum flotta stað. Hægt er að lesa fleiri umsagnir á Tripadvisor og fær staðurinn toppeinkunn þar eins og hjá okkur. Það er alveg klárt mál að við þurfum að koma aftur síðar til að ná að smakka fleiri rétti af matseðlinum!

Það er svo mikið skemmtilegt hægt að gera í Vestmannaeyjum til viðbótar við frábæra veitingastaði. Við heimsóttum til að mynda bæði Eldheima og Sea Life Trust. Bæði börnum og fullorðnum fannst það frábær skemmtun og afar fróðlegt. Elsku mjaldrarnir heilsuðu vel upp á okkur og krakkarnir stóðu agndofa og fylgdust með þeim. Síðan var sprangað, gengið upp á Eldfell og út á Stórhöfða sem á víst að vera vindasamasti staður Evrópu!

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun