
Við fjölskyldan elskum að ferðast og nú á þessum skrítnu tímum er svo sannarlega tilefni til þess að njóta okkar eina sanna Íslands með færri ferðamönnum en annars. Við skulum nú samt vona að ferðamennirnir birtist sem fyrst aftur því það eru jú þeir sem snúa hjólum atvinnulífsins hérlendis að stóru leyti. Mig langar því að hvetja alla Íslendinga til að nýta sér þá þjónustu sem ferðaþjónustufyrirtækin eru að bjóða upp á í sumar og upplifa landið á ævintýralegan máta. Það er svooooo margt sniðugt sem er hægt að gera og nú er tíminn! Við ætlum í það minnsta að vera dugleg að prófa eitt og annað og flakka aðeins um á næstu vikum.

Um síðustu helgi fórum við í dagsferð austur fyrir fjall. Veðrið var dásamlegt þó það væri aðeins kalt og við borðuðum góðan mat, heimsóttum áhugaverða grænmetisræktendur og skoðuðum náttúruna. Hér kemur því hugmynd af skemmtilegum degi sem allir voru hæstánægðir með og ég mæli með þið prófið á næstunni.
Ævintýraferð austur fyrir fjall

Fyrsta stopp var í Friðheimum þar sem við gæddum okkur á dýrindis veitingum í hlýjunni áður en við héldum áfram för okkar.

Við höfum oft komið í Friðheima og alltaf togar þessi dásamlegi staður í okkur með reglulegu millibili, hvort sem það er um sumar, vetur, vor eða haust. Þið getið séð nánari umfjöllun um Friðheima hér undir „Matarupplifun“ á síðunni.

Í Friðheimum eru einnig hestar og eru yfirleitt alltaf nokkrir hestar úti fyrir ofan veitingstaðinn sem hægt er að koma og klappa og skoða.

Faxi er alltaf fallegur og gaman að koma þar við á leið sinni frá Friðheimum yfir á Gullfoss. Það er hægt að ganga alveg niður að fossinum og skoða laxastigann sem sést lengst til vinstri á myndinni.

Við létum það duga að þessu sinni að horfa á fossinn úr fjarlægð þar sem frekari fossaskoðanir voru á dagskrá þennan daginn.

Næst var að bruna upp að Gullfossi. Þar er alltaf gaman að koma og labba niður stíginn og síðan fara í kapp upp allar tröppurnar (já eða keyra þangað, haha) til að njóta þessa náttúruundurs frá mismunandi sjónarhornum.

Sumar og vetur mætast svo sannarlega hér og vatnið æðir niður á ógnarhraða.

Þegar sólin skín myndast oft regnbogi við fossinn þar sem vatnið frussast upp í loftið á ákveðnum stað og það er fátt fallegra en þetta.

Hverasvæðið við Geysi er síðan skyldustopp á bakaleiðinni.

Strokkur lætur til sín taka með reglulegu millibili og stelpurnar ætluðu ekki að tíma að fara því þær vildu alltaf sjá hann gjósa aftur og aftur.

Mikilvægt að stoppa síðan og njóta.

Að kynna börnin sín fyrir náttúrunni, útivist og ævintýrum er eitthvað sem mér finnst mjög mikilvægt. Við elskum að fara í fjöruferð, fjallgöngur, vaða í ám og veiða síli, fara í göngutúr með nesti, upplifa heiminn (þegar það er ekki covid-19) og alls konar bras. Ég vill meina að það sé þetta sem gefur lífinu gildi og skapi góðar minningar umfram margt annað.

Næst keyrðum við á Flúðir en við sáum að Silfurber auglýstu að berin þeirra væru komin til sölu í kofanum. Ég eeeeelska alla svona sjálfsafgreiðslustaði þar sem hægt er að setja peninga í bauk og næla sér í ferskt grænmeti, ávexti eða annað góðgæti.

Jarðaberin gerast ekki mikið nýrri og ferskari en þetta, namm!

Við hittum þau Olgu og Eirík þegar við komum á staðinn og fengum að kíkja inn í gróðurhúsin þeirra. Þau eru stór og mörg og gaman að fræðast um þá tækni sem notuð er við að rækta berin. Það skiptir líka máli hvernig þau eru slitin af og mikilvægt að kunna réttu handtökin til að varan verði sem best.

Stelpurnar voru svo heppnar að fá einkakennslu hjá Eiríki í tínsluaðferðarfræðinni að Elín Heiða er að hugsa um að verða jarðaberjabóndi þegar hún verður stór því henni fannst þetta svo gaman.

Þegar við bjuggum í Seattle í Bandaríkjunum fórum við á „Stawberry Field“ að tína ber úti og söknum þess mikið. Hjá Silfurber er stundum í boði fyrir almenning að koma og tína ber og hefur slíkt reynst mjög vinsælt svo ég mæli með að fylgjast með síðunni þeirra til að missa ekki af slíku tækifæri.

Þessi dúlla var í það minnsta mjög ánægð með berin sín.

Á bakaleiðinni komum við svo við í Kerinu en það er alltaf jafn fallegt að ganga eftir stígnum og horfa ofan niður á þessi grænu fallegheit.

Það er góður göngurstígur alveg niður að vatninu og liggur hann allan hringinn fyrir þá sem vilja ganga meðfram. Núna var hins vegar svo mikið vatn í Kerinu að hann var nánast allur á bólakafi!

Vona innilega þið hafið haft gagn og gaman af þessari færslu og getið nýtt ykkur þessar hugmyndir til að gera eitthvað skemmtilegt á næstunni.
Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM og þar er einnig að finna myndir og myndbandsupptökur af þessum dásamlega degi undir Highlights