Arnarstapi Center – Arnarstapa Snæfellsnesi

Við dvöldum í nokkrar nætur í sumarbústað vinafólks okkar á Arnarstapa í sumarfríinu. Arnarstapi er dásamlegur staður og ótrúlega margt skemmtilegt að skoða í nágrenni hans. Fyrirtækið Arnarstapi Center býður upp á ýmiss konar þjónustu þar á svæðinu, bæði fjölbreytta gistimöguleika og huggulega veitingastaði.

Venjulega starfrækir fyrirtæki tvo veitingastaði á svæðinu, bæði Arnarbæ og Snjófell en nú í sumar er aðeins opið í Snjófelli sökum aðstæðna vegna Covid 19. Hér fyrir ofan má hins vegar sjá mynd af fallega Arnarbæ og við munum sannarlega koma aftur í heimsókn þegar þar verður búið að opna. Það er nú ekki á hverjum degi sem hægt er að snæða í svona fallegu húsi.

Veitingastaðurinn Snjófell er þó ekki síðri og er staðsettur í nýbyggingu á svæðinu og er nútímalegur og fallegur veitingastaður sem leggur áherslu á mat úr heimabyggð.

Bárður Snæfellsás stendur fyrir neðan Arnarstapa Center og hef ég munað eftir þessum síðan ég var lítil stelpa á myndum hjá mömmu og pabba.

Arnarstapi Center er fjölskyldurekið fyrirtæki þar sem Kristín Jóhannesdóttir og fjölskylda hafa staðið vaktina í um 15 ár. Það er virkilega gaman að dvelja á Arnarstapa og næst þegar við komum þangað langar okkur til að prófa gistinguna hjá Arnarstapa Center, enda úr nægu að velja.

Við fengum okkur ýmsa rétti af kvöldverðarseðlinum þegar við komum í heimsókn og áttum notalega stund í Snjófelli. Hér fyrir neðan má sjá brot af því besta af matseðlinum.

Lambakjöt í dýrindis bbq sósu með bernaise og frönskum. Hér er nákvæmlega ekkert sem getur klikkað!

Guðdómleg sjávarréttasúpa sem kláraðist upp til agna, namm!

Fiskur og franskar fyrir þá minnstu. Hún gæti mögulega verið orðin háð fiski með tómatsósu eftir þetta ferðalag okkar. Hún kunni sannarlega að meta þennan góða fisk!

Það er sko alveg hægt að fá „Pizza Hawaii“ þó maður sé á ferðalagi og þessi pizzubotn var alveg brjálæðislega góður. Klárlega eitthvað vestfirskt töfraráð sem er þarna í uppskriftinni!

Við tókum göngutúr um Stapann á hverjum degi meðan við dvöldum þar og kíktum einnig í Snjófell til að fá okkur dýrindis kökur, heitt súkkulaði með rjóma og almenn sumarfríshuggulegheit í kaffitímanum einn daginn.
Við fengum fregnir af því að mamma Kristínar sæi um að baka heimagerðar kökur fyrir staðinn og getum við ekki annað en mælt með því að kíkja þangað í kaffi! Kökurnar voru hver annarri betri svo það er erfitt að segja hvað ætti að velja, bara smá af öllu og deila myndi ég segja.

Súkkulaðiterta með rjóma, namm!

Klassísk og guðdómleg hjónabandssæla sem við Hemmi slógumst um að klára, hahaha!

Súkkulaðibitakökur voru vinsælar hjá systrunum.

Þessi ostakaka var alveg geggjuð!

Heimabökuð gulrótarterta, unaður í hverjum bita.

Heitt kakó með rjóma er mitt uppáhald og allra dætra minna. Ég hef aldrei drukkið kaffi svo ég hugsa að þetta sé svona kósýbollinn minn með góðum kökum eða sætindum.

Mæli sannarlega með því að þið kíkið við hjá Arnarstapa Center á ferðalagi um Snæfellsnes.