Kaffihúsið Litlibær í Skötufirði – Ísafjarðardjúpi

Í Skötufirði stendur eitt minnsta bæjarhús á Íslandi og hýsir þar krúttlegasta kaffihús sem ég hef komið á sem heitir Litlibær.

Við hittum á Guðrúnu Fjólu sem rekur ásamt foreldrum sínum kaffihúsið en foreldrar hennar bjuggu einmitt í Litlabæ hér á árum áður. Húsið hýsti meira að segja tvær heilar fjölskyldur á sínum tíma en nú er það í eigu Þjóðminjasafns Íslands enda margt áhugavert að skoða í þessu litla fallega húsi. Margir dýrmætir munir og menning fylga húsinu og að ganga inn í það er ævintýri líkast. Stelpurnar mínar sögðu að þetta væri eins og dúkkuhús enda víða lágt til lofts, lítil herbergi og þröngur stigi upp á aðra hæð.

Gömlu fjárhúsin standa enn fyrir ofan húsið og það er gaman að koma þarna við í kaffi á ferð sinni um Vestfirði, ég myndi nánast segja að það sé skyldustopp.

Við vorum á ferðinni um kaffileytið og öll orðin sársvöng af ferðalagabrölti líkt og fyrri daginn í sumarfríinu svo það var kærkomið að setjast inn hjá Guðrúnu Fjólu og fjölskyldu og gæða sér á dýrindis heimabakstri úr sveitinni.

Ilmurinn af nýbökuðum vöfflum er eitthvað sem enginn fær staðist og vöfflurnar á Litlabæ eru mögulega bestu vöfflur landsins, það er bara þannig, með heimalagaðri sultu og þeyttum rjóma, namm!

Hjónabandssælan var sannarlega sæla út í gegn og þessa leyniuppskrift verð ég að plata hana Guðrúnu Fjólu til að gefa mér. Ég hef ansi oft gert hjónabandssæluna hennar ömmu Guðrúnar en þessa væri ég sko sannarlega til í að prófa líka.

Bláberjabaka með heimalagaðri bláberjasultu var himnesk!

Eplakaka í léttari kantinum með karamellusósu og rjóma. Hugsa ég gæti þurft þessa uppskrift líka til að deila með ykkur, hún var dásamleg!

Heitt súkkulaði með rjóma á línuna og allar dömurnar fengu að velja sér bolla, þeirri minnstu fannst það nú ekki leiðinlegt.

Ég þori auðvitað varla að segja það en dætur mínar eru alls eins miklar kökukonur og móðir sín. Kannski af því það er hreinlega allt of mikið af kökum alltaf í kringum þær en ég vona þetta muni breytast í framtíðinni, hahahaha! Þeim var því boðið upp á grillaða samloku með vöfflunum á meðan við foreldrarnir sátum að dýrindis kökusneiðum.

Það voru bæði Jakob og Tinna vinir mínir sem bentu mér á að koma við í Litlabæ, ásamt því sem Tinna benti mér á að stoppa þar sem „Gatið væri í steininum“ í Skötufirði líka fyrir myndastopp.

Ég var að sjálfsögðu með þetta allt skrifað niður án þess þó að vita hvernig „Gatið í steininum“ í raun liti út. Það settust síðan mæðgur sem spanna þrjá ættliði úr sveitinni á næsta borð við okkur og gaf ég mig á tal við þær og fór að spyrja hvort þær þekktu til varðandi steininn. Þetta voru þær Jóna, Solla og Gunna Jóna og Jóna sækir veskið sitt og nær í mynd af eiginmanni sínum heitnum og sýnir okkur, þar sem hann sat einmitt í steininum sem hún kallaði „Húsið“. Jóna og fjölskylda höfðu búið á Eyri sem er næsti bær við Litlabæ svo við duttum heldur betur í lukkupottinn að hitta á þær og þegar við renndum af stað frá Litlabæ fundum við „Húsið“ fallega nánast innst í fiðrinum, rétt áður en komið var að botni hans. Við vorum á leið til Mjóafjarðar og þá er steinninn til hægri við veginn áður en komið er inn í botn. Það þarf þó að fylgjast vel með því það er ekki bílastæði né annað við steininn heldur þarf bara að keyra rólega út af veginum og stoppa þar.