
Hér eru á ferðinni stökkar ostastangir eða nokkurs konar ostafranskar úr grillosti. Þetta var skemmtileg útfærsla af „Halloumi fries“ og dressingin dásamleg með.

Ostastangir – uppskrift
Um 20 ostastangir
Ostastangir
- 1 stykki grillostur frá Gott í matinn (260 g)
- 50 g hveiti
- 1 msk. chilikrydd
- 1 msk. salt
- Matarolía til steikingar
- Skerið ostinn í lengjur og blandið þurrefnunum saman í skál og veltið ostastöngunum vel upp úr blöndunni.
- Hitið olíu í djúpum potti og djúpsteikið síðan ostinn við meðalháan hita þar til stangirnar verða gylltar að utan. Lyftið honum þá upp úr og yfir á pappír til að olían leki vel af þeim.
- Berið ostastangirnar fram heitar með sítrónudressingu (sjá uppskrift hér að neðan).
Sítrónudressing
- 100 g grísk jógúrt frá Gott í matinn
- 100 g sýrður rjómi frá Gott í matinn
- 2 msk. sítrónusafi
- 1 msk. rifinn sítrónubörkur
- 1 tsk. chilikrydd
- 1 msk. söxuð sítrónumelissa (má sleppa)
- Salt og pipar eftir smekk
- Blandið öllu saman í skál og berið fram með ostastöngunum.

Ég hef ekki áður rekist á ferska sítrónumelissu í búðinni. Hún lítur svipað út og mynta og er búin að lifa lengi í pottinum sem ég setti hana í eftir að ég gerði þessa uppskrift. Lyktin af henni er dásamleg og hægt að nota hana í ýmsa matargerð.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM