
Ég má til með að hafa þessa mynd fremst í þessari færslu. Það hafa svo margir spurt okkur hvar við vorum eftir að ég setti inn myndir á mína persónulegu samfélagsmiðla á ferðalaginu enda ekki á hverjum degi þar sem það hægt er að sveifla sér í kaðli í sundlaug, í gróðurhúsi! Stelpurnar elskuðu þetta og við ætluðum aldrei að ná þeim upp úr, hahaha! Hemmi tók reyndar líka aðeins í kaðalinn en við skulum ekkert ræða það frekar. Það gæti nefnilega verið að hann hafi farið heim úr sumarfríinu með risa marblett á lærinu….hihihi, en auðvitað allt sveiflunnar virði!

Þessi ævintýralega sundlaug er staðsett í gróðurhúsinu (númer 9 á teikningunni) í Heydal. Heydalur er sveitahótel, tjaldsvæði, veitingahús og ýmis afþreying er þar í boði hjá þeim Stellu, Lóu og Gísla. Heydalur stendur við botn Mjóafjarðar og var síðasti gististaðurinn okkar í Vestfjarðarreisunni miklu. Þangað var yndislegt að koma, allt svo heimilislegt og afslappað, góður matur, skemmtileg afþeying og ýmislegt spennandi að sjá.

Hægt er að fara bæði á hestbak og á kajak í Heydal en veðrið var ekki alveg að vinna með okkur seinni daginn okkar svo við tókum bara göngu út að náttúrulauginni (númer 14 á teikningunni) og héldum svo heim á leið fyrr en til stóð. Fyrir utan sundlaugina í gróðurhúsinu eru æðislegir heitir pottar með sandi í botninum þar sem hægt er að sulla og hafa það huggulegt (númer 10 á teikningunni).

Í gróðurhúsinu vaxa síðan kirsuber, jarðaber, hindber og fleiri ávextir og þetta var eins og við værum komin á suðrænar slóðir og lét okkur gleyma því við værum um hásumar í 10 gráðu hita á Íslandi!

Við leigðum okkur fjölskylduherbergi sem hýsti okkur öll fimm. Það var hreint og snyrtilegt með guðdómlegt útsýni yfir svæðið.

Niðri við tjaldsvæðið er aparóla og ýmislegt spennandi fyrir börnin og síðan er stutt ganga yfir að náttúrulauginni sem er undurfalleg.

Yndislegir voffalingar eru á Heydal og hann Bangsi var í sérlegu uppáhaldi hjá stelpunum mínum. Síðan var Loki okkar helsti leiðsögumaður þegar við gengum að heitu náttúrulauginni. Hann fylgdi okkur alla leið og passaði upp á að við myndum ekki villast.

Bangsaknús!

Veitinga- og morgunverðarstaðurinn er í gömlu hlöðunni, fyrstu herbergin eru byggð yfir fjósin og síðan var viðbygging gerð einhverju seinna með fleiri herbergjum. Fjárhúsin fengu að víkja fyrir sundlaug og gróðurhúsi og reist hafa verið nokkur sumarhús sem einnig er hægt að panta gistingu í. Fiskeldi er á staðnum og verið er að byggja nýtt slíkt ásamt gróðurhúsi sem kemur til með að vera afar vistvænt í rekstri og nýtast vel á Heydal í framtíðinni. Páfagaukurinn Kobbi (eða Jakob) skemmtir gestum yfir daginn og er algjört krútt.

Eyrarrósin er falleg og þarna má sjá Heydal í baksýn. Við snæddum kvöldverð í Heydal og hér fyrir neðan koma smá upplýsingar um þær veitingar sem eru í boði en áhersla er lögð á hráefni úr heimabyggð.

Jurtakryddað lambafillet með villisveppasósu úr Heydal: Lamb, villisveppir, rjómi og piparostur, borið fram með hvítlauks kartöflustrimlum, grænmetisblöndu og fersku salati. Namm þetta var svooooooo gott!

Lambapottréttur að hætti Ævintýradalsins heitir þessi réttur. Í honum er lambakjöt, karrý, blaðlaukur, gulrætur og bananar. Þetta var virkilega góður pottréttur og áhugavert að nota banana í bland við karrý og lambakjöt, ég þyrfti að fara að gera slíka tilraun hér á blogginu!

Heydalsborgarinn stóð fyrir sínu en hann er með nautakjöti, beikoni, osti, grænmeti, bbq sósu og rósmarín kartöflum. Unglingurinn kunni vel að meta þennan rétt og hér var sko um almennilegt kjöt að ræða!

Stelpurnar fengu hakk og spaghetti og voru ekkert smá ánægðar með ekta heimilismat í fríinu. Sú stutta kláraði skammtinn sinn upp til agna svo það eru klárlega góð meðmæli!

Við fórum síðan í dýrindis morgunverðarhlaðborð daginn eftir áður en haldið var af stað heimleiðis með viðkomu á nokkrum stöðum. Mikið úrval var af heimabökuðu brauði, bollum og alls kyns áleggi og maðurinn minn gaf þeim eðlilega 10+ í einkunn þegar hann rak augun í reykta bleikju að hætti heimamanna sem var algjört lostæti!

Allt svo heimilislegt og yndislegt í Heydal. Við munum klárlega koma við þar aftur næst þegar við ferðumst um Vestfirði.

Takk fyrir okkur!
Hægt er að fylgjast með ferðalögum, gistingu og fleiru skemmtilegu í Highlights á Instagram Gotterí fyrir áhugasama.