
Humar er herramanns matur og ætti maður að leyfa sér að borða hann miklu oftar því það gleður svo sannarlega hjartað um leið og magann!

Hvað er dásamlegra en að elda sér ljúffenga humarmáltíð. Við eigum það svo sannarlega skilið annað slagið!
Þessi uppskrift er mín leið að herma eftir humrinum sem seldur er á veitingastaðnum Fjöruborðið á Stokkseyri. Þar er hann borinn fram með kartöflum og sítrónubátum og núna getið þið útbúið þessa dýrindis máltíð heima í stofu.

Smjörsteiktur humar á pönnu
Fyrir 2
Humar og kartöflur
- 2 bakkar klofnir og hreinsaðir humarhalar frá 101 Seafood (900g)
- 2 msk. ólífuolía
- 120 g smjör
- 3 hvítlauksrif
- 3 msk. söxuð steinselja
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Safi úr ½ sítrónu (+ meira til skrauts)
- Smælki kartöflur (um 6 stykki á mann)
- Hvítlauksbrauð (sjá uppskrift að neðan)
- Affrystið, skolið og þerrið humarinn.
- Sjóðið kartöflurnar (gott að útbúa brauðið og annað á meðan)
- Setjið ólífuolíuna og smjörið á pönnuna og rífið hvítlauksrifin út á, steikið við vægan hita þar til hvítlaukurinn mýkist aðeins og bætið steinseljunni saman við.
- Hellið megninu af smjörinu í skál til hliðar þar til síðar, hækkið hitann í meðalháan og steikið humarinn upp úr þeim hluta smjörblöndunnar sem eftir var á pönnunni. Gott er að setja kjöthliðina niður og það tekur aðeins örfáar mínútur fyrir humarinn að eldast í gegn (eldunartími fer eftir stærð). Þegar hann fer aðeins að „krullast upp“ þá er hann tilbúinn.
- Bætið soðnum kartöflum nú út á pönnuna og hellið smjörinu sem var sett til hliðar áðan yfir allt saman og blandið saman.
- Berið fram með ristuðu hvítlauksbrauði og sítrónubátum.
Hvítlauksbrauð
- ½ snittubrauð
- 50 g smjör
- 2 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- Rifinn ostur
- Rifinn parmesanostur
- Skerið brauðið skáhallt í sneiðar.
- Bræðið saman smjör, rifin hvítlaukrif, salt og pipar
- Penslið sneiðarnar með vel af smjörblöndu.
- Rífið ost og parmesanost yfir eftir smekk.
- Bakið við 200°C í um 5 mínútur.

Klofinn og hreinsaður humar er líklega ein mesta snilld sem ég hef séð! Hér er búið að gera allt þetta leiðinlega fyrir mann og það er bara hægt að byrja að elda! Er klárlega að fara að panta meira af þessum humri og það besta er að hægt er að panta þennan humar á heimasíðu 101 Seafood og fá sendan heim að dyrum!

Fljótlegt og ljúffengt!