Restaurant Mika – Reykholti

Á dögunum fórum við svilkonurnar í stelpuferð með dætur okkar. Við byrjuðum á Sælkerarölti um Reykholt sem ég mun segja ykkur nánar frá fljótlega og fengum okkur síðan dásamlegan hádegisverð á Restaurant Mika í Reykholti.

Mika er veitingastaður sem lætur fara lítið fyrir sér. Við höfum keyrt nokkrum sinnum framhjá án þess að átta okkur á því að þarna í þessu skemmtilega húsi töfra Michał og kona hans Bożenu fram dýrindisrétti. Matseðilinn er fjölbreyttur og ótrúlega margt spennandi að smakka og síðan útbúa þau undurfallegt, handgert konfekt sem er sko sannarlega þess virði að bragða á!

Sagan byrjaði árið 2010 þegar hjónin komu til að selja konfektið sitt á jólamarkaði í Bjarkarhöll en þá hét húsið því nafni. Í framhaldinu, eða í febrúar 2011 hófu þau rekstur á kaffihúsi í hluta hússins. Fjórum árum síðar keyptu þau allt húsið, stækkuðu veitingastaðinn og geta nú tekið á móti 100 gestum. Á þessum tíma hafa þau útbúið nýtt eldhús og sér rými þar sem konfektið er útbúið svo það hefur verið í nægu að snúast.
Markmið Mika er að hafa fjölbreyttan matseðil og höfða til sem flestra. Staðurinn hentar því fólki sem vill koma með fjölskylduna í pizzur, fyrir þá sem vilja koma á rómantískt stefnumót og allt þar á milli.

Við stelpurnar smökkuðum á ýmsum réttum þennan dag og voru þeir hver öðrum ljúffengari. Forréttirnir voru svo spennandi að við fengum okkur nokkra til að deila og hér fyrir neðan langar mig að lista upp það sem við smökkuðum í máli og myndum en matseðil Mika er að finna í heild sinni hér.

Crystal Dumplings: Rækju koddar með engifer, kóríander og chili-yuzu dýfu. Þetta var alveg einstaklega gott, mjúkt og bragðgott um leið og það var brakandi ferskt.

Sveppir: Smjöreldaðir sveppir með lakkrís majó, gráðaosti og appelsínuhlaupi, namm! Þessir sveppir voru frá annarri plánetu, algjört lostæti og virkilega skemmtileg útfærsla.

Kirsuberjatómatar: Tómatar með heimalöguðum reyktum osti, jarðarberjasultu og basil olíu. Þessi ostur var svo ljúffengur og góður og smellpassaði með kirsuberjatómötunum. Jarðarberjasultan setti síðan sinn svip á diskinn og var skemmtileg fyrir bragðlaukana!

Wings & Shrims: Kjúklingavængir og rækjur með sterkri jarðarberjasósu. Þetta var brjálæðislega gott og fór einstaklega vel saman.

Djúpsteiktur humar: Þetta var síðasti forrétturinn sem við smökkuðum og NAMM, ég þarf klárlega að reyna að leika þetta eftir hér á blogginu fyrir ykkur! Humar í kókoshjúpi með hvítsúkkulaði-chili ídýfu, slurp!

Humarsalatið var einstaklega djúsí og hlaðið humri. Steiktur humar, blandað grænmeti og hvítsúkkulaði chili-sósa sem vert er að smakka.

Sjávarréttapasta með tagliatelle, humri, rækjum, bláskel og skelfisksósu, borið fram með hvítlauksbrauði. Virkilega fallegur og bragðgóður diskur fyrir alla sem elska sjávarrétti.

Villisveppa Risottó með grilluðum kjúkling. Þetta var guðdómlegt risottó með blönduðum sveppum, arborio rice, truffluolíu og parmesan osti. Kjúklingurinn var mjúkur og passaði einstaklega vel með svo ég myndi setja þetta sé hin fullkomna tvenna.

Á barnamatseðlinum var þessi dýrindis kjúklingur í boði, ferskur og góður!

Litlurnar fengu sér síðan steinbakaða margaritu pizzu sem var hrikalega góð, við urðum auðvitað líka að smakka aðeins á henni svo við þurfum klárlega að koma aftur í Pizzaheimsókn á Mika til að prófa fleiri útfærslur af pizzum, namm!

Handgert konfekt sem við settumst síðan með út í sólina yfir kaffibolla var síðan algjörlega til að toppa dýrðlega máltíð.
Í konfektið nota þau hágæða súkkulaði frá Belgíu, Frakklandi og Sviss í bland við íslensk hráefni. Öll fjölskyldan tekur þátt í því að útbúa konfekt, bæði þau hjónin og börnin þeirra þrjú ásamt starfsfólki. Þau hafa nú sér rými fyrir konfektgerðina og framleiða líka sultur og ýmislegt annað góðgæti og stefna á að bæta enn frekar í flóruna þar. Það er því hægt að koma og snæða dýrindis máltíð og taka til viðbótar góðgæti með heim, í gjafir eða annað slíkt.

Dagsferðir um Suðurlandið eru frábærar og kíktum við í Slakka að loknum hádegisverði svo allar fórum við stelpurnar heim saddar og sælar með góðan dag í sólinni.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM