
Hér er á ferðinni brjálæðislega gott kartöflusalat sem er fullkomið með grillmatnum eða hverju sem ykkur dettur í hug.

Undanfarna daga hefur veðrið leikið við okkur hér á Höfuðborgarsvæðinu svo sumarið er svo sannarlega enn að láta sjá sig. Því er tilvalið að grilla eitthvað gott kjötmeti og bjóða upp á með þessu dásamlega kartöflusalati!

Kartöflusalat
- 700 g soðnar kartöflur
- 150 g stökkt beikon
- 250 g Hellmann‘s majónes
- 4 harðsoðin egg
- 2 msk. Dijon sinnep
- 2 msk. Relish
- ½ rauðlaukur
- 2 x vorlaukur
- 1 tsk. saxað ferskt timian
- 1 msk. sykur
- Salt og pipar
- Skerið kartöflurnar niður í munnstóra bita og setjið í skál.
- Saxið stökkt beikonið smátt og bætið í skálina.
- Skerið rauðlauk í þunnar sneiðar og vorlaukinn smátt og setjið einnig saman við.
- Næst má hræra saman majónesi, sinnepi, Relish, sykri og timian og smakka síðan til með salti og pipar.
- Þessu má svo hella yfir hráefnin í skálinni og blanda varlega saman með sleif.
- Að lokum má skera eggin niður í bita og blanda þeim varlega saman við allt saman.
- Best er að kæla kartöflusalatið í að minnsta kosti klukkustund áður en það er borið fram (gott að grilla kjöt og leggja á borð á meðan).
- Berið fram með pylsum og kjöti sem ykkur þykir gott.

Það þarf svo sannarlega ekki að vera flókið til að vera gott! Kjöt, pylsur og kartöflusalat er hin fullkomna tvenna!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM