
Ef ykkur vantar eitthvað til að fullkomna góða máltíð á næstunni þá er það þessi eftirréttur hér!

Það er hægt að gera þennan rétt með smá fyrirvara og geyma síðan bara plastaðan í kæli þar til tímabært er að setja hann í ofninn. Þá er hægt að nýta tímann til að hræra í sósuna og þá er hún klár þegar rétturinn kemur úr ofninum.

Epladraumur
Uppskrift dugar í 6-8 form eftir stærð
- 330 g smátt skorin epli (um 4-5 stykki)
- 150 g Milka-Daim súkkulaði
- 3 msk. kanelsykur
- 90 g hveiti
- 80 g púðursykur
- 100 g smjör við stofuhita (+ meira til að smyrja með)
- 50 g tröllahafrar
- Ís og karamellusósa ofan á
- Smyrjið lítil eldföst mót með smjöri (eða eitt stórt).
- Saxið súkkulaðið gróft niður og blandið saman eplum, súkkulaði og kanelsykri í stóra skál.
- Skiptið eplablöndunni niður í formin og útbúið hjúpinn.
- Blandið saman hveiti, púðursykri, smjöri og tröllahöfrum.
- Setjið vel af blöndu yfir hvert form með því að losa deigið aðeins niður með fingrunum.
- Bakið í 180° heitum ofni í um 25 mínútur og útbúið karamellusósuna á meðan (sjá uppskrift að neðan).
- Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr og setjið þá ís og karamellusósu yfir eftir smekk.
Karamellusósa
- 1 poki Dumle karamellur (120 g)
- 4 msk. rjómi
- Setjið saman í pott og hrærið við miðlungs hita þar til karamellurnar eru bráðnaðar.
- Leyfið aðeins að kólna niður og berið fram með epladraumnum ásamt ís.

Þetta súkkulaði er alveg hættulega gott! Ég smakkaði einn bita á meðan ég var að útbúa réttinn og áður en ég vissi af var ég hálfnuð með eina plötu og þurfti að segja stopp til að hafa nóg í réttinn sjálfan, hahaha!

Það er ofsalega fallegt að bera epladrauminn fram í litlum ílátum og þannig fær hver sinn skammt en einnig er hægt að setja þetta í eitt stærra eldfast mót og þá mögulega lengja bökunartímann um 5 mínútur. Ef þið hafið skorið eplin smátt niður ættu samt 25 mínútur í heildina alveg að duga.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM