Tortellini með tómötum og Mascarpone



⌑ Samstarf ⌑
Tortellini með tómötum og Mascarpone osti

Þegar það sér fyrir endann á sumrinu fer maður í annan gír í eldhúsinu. Nú sit ég yfir súpu-, pasta- og ofnuppskriftum í bland við bökur, pæ og önnur huggulegheit. Það er svo gaman að breyta um takt í matseldinni í stíl við árstíðirnar svo ég verð að segja að ég er að detta í haustgírínn, hvernig svosem þetta sumar fór að því að líða svona hratt!

Tortellini með tómötum og Mascarpone osti

Þessi pastaréttur var alveg hreint undursamlegur. Ég hef ekki mikið notað Mascarpone ost í matseld í gegnum tíðina, fyrir utan kökur jú, og nú verður gerð breyting þar á. Mikið sem hann fór vel með þessum pastarétti og ég fæ alveg vatn í munninn við að skrifa þessa færslu. Ég hugsa það líði ekki á löngu áður en það verður skellt í þessa uppskirft aftur!

Tortellini með tómötum og Mascarpone osti

Tortellini með tómötum og Mascarpone

Fyrir 5-6 manns

  • 700 g ferskt osta Tortellini (eða annað fyllt Tortellini)
  • 800 g hakkaðir tómatar í dós (2 dósir)
  • 150 ml rjómi frá Gott í matinn
  • 150 g kastaníusveppir
  • 1 laukur
  • 150 g spínat
  • Smjör og ólífuolía til steikingar
  • Salt, pipar, oregano, hvítlauksduft
  • Rifinn Grettir ostur
  • 200 g Mascarpone ostur frá Gott í matinn
  • Fersk basilíka
  1. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum. Ef notast er við ferskt pasta tekur það aðeins örfáar mínútur að verða tilbúið.
  2. Saxið niður lauk og skerið sveppi í sneiðar, steikið upp úr blöndu af smjöri og ólífuolíu þar til mýkist. Bætið þá spínati á pönnuna og kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
  3. Þegar grænmetið er orðið mjúkt má hella tómötum í dós ásamt rjóma yfir og leyfa að malla smá stund. Kryddið til eftir smekk.
  4. Þegar tortellini er tilbúið skal hella því á pönnuna og hræra saman við tómatblönduna.
  5. Setjið pastað næst í eldfast mót (nema pannan/potturinn megi fara í ofn), rífið vel af Gretti ost yfir allt saman og setjið að lokum vel af Mascarpone osti yfir það.
  6. Bakið í 200°C heitum ofni í um 10 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.
Tortellini með tómötum og Mascarpone osti

Ef þið lumið á góðum mataruppskriftum sem innihalda Mascarpone og þið viljið sjá hérna á blogginu megið þið endilega senda mér hana á gotteri@gotteri.is. Mig langar endilega að prófa fleiri gómsætar uppskriftir með þessum frábæra osti.

Tortellini með tómötum og Mascarpone osti

Það væri síðan frábært ef þið mynduð líka smella hér til að fylgja Gotterí á INSTAGRAM.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun