Sultutíminn er kominn⌑ Samstarf ⌑
Aðalbláberjasulta og rifsberjahlaup með sultuhleypi

Loksins kom að því að ég prófaði að gera sultur! Mamma gerir alltaf rabarbarasultu og setti ég einmitt uppskriftina að henni hingað inn í fyrra. Ég var líka að átta mig á því að rabarbari er ekki skrifaður rabbabari þó svo ég hafi haldið það í mörg herrans ár, hahaha!

Aðalbláberjasulta og rifsberjahlaup með sultuhleypi

Það var hún yndislega Bogga frænka mín sem færði mér ýmiss konar ber í vikunni fyrir þessa tilraunastarfsemi. Bogga er líklega ein mesta berjakona landsins og tínir hún meira af aðalbláberjum en flestir á landinu myndi ég halda. Börnin hennar segjast fölna við hliðina á henni þegar í brekkurnar er komið. Svoleiðis er tæknin, að þau séu ekki komin með botnfylli þegar hún er búin að fylla fötuna!

Aðalbláberjasulta og rifsberjahlaup með sultuhleypi

Hér útbjó ég aðalbláberjasultu og rifsberjahlaup eftir uppskrift og aðferð frá Boggu og komu báðar einstaklega vel út og þetta var sko sannarlega minna mál en ég var búin að ímynda mér.

Aðalbláberjasulta

 • 500 g aðalbláber
 • 250 g sykur (+ 1 msk.)
 • ½ tsk. af rauðum Melatin sultuhleypi frá Torsleffs
 1. Setjið bláber og sykur saman í pott.
 2. Náið upp suðunni, lækkið hitann og leyfið að malla í um 15-20 mínútur.
 3. Hrærið ½ tsk. af sultuhleypi saman við 1 matskeið af sykri, stráið yfir bláberjablönduna í lokin, hrærið vel í á meðan og leyfið að malla í um 5 mínútur í viðbót. Það er gott að blanda hleypinum saman við smá sykur til að hann kekkjist síður.
 4. Hellið í gegnum tregt í krukkur, þessi uppskrift dugði í þrjár 220 ml krukkur.
Aðalbláberjasulta og rifsberjahlaup með sultuhleypi

Rifsberjahlaup

 • 500 g rifsber
 • 250 g sykur (+ 2 msk.)
 • ½ bréf af gulum Melatin sultuhleypi frá Torsleffs
 • Setjið rifsber og sykur saman í pott (berin mega vera með stilkum).
 • Náið upp suðunni, lækkið hitann og leyfið að malla í um 15-20 mínútur.
 • Hellið blöndunni í gegnum sigti án þess að pressa fast niður, viljið ekki hratið með.
 • Setjið sigtuðu blönduna síðan aftur í pottinn og náið upp hita að nýju.
 • Hrærið ½ bréfi af sultuhleypi saman við 2 matskeiðar af sykri, stráið yfir sigtaða rifsberjablönduna, hrærið vel í á meðan og leyfið að malla í um 5 mínútur í viðbót. Það er gott að blanda hleypinum saman við smá sykur til að hann kekkjist síður.
 • Hellið loks í gegnum tregt í krukkur, þessi uppskrift dugði í þrjár 220 ml krukkur.
Aðalbláberjasulta og rifsberjahlaup með sultuhleypi

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun