
Það er fátt betra en nýbakað pæ með ís eða rjóma að mínu mati. Hér eru á ferðinni þrjú pæ með sama grunni en mismunandi berjum og súkkulaði. Ég varð auðvitað að nota restina af gómsætu berjunum sem ég fékk hjá Boggu frænku og galdraði því fram þessi dýrindis berjapæ úr restinni, namm!

Þegar ég kom inn í Húsgagnahöllina um daginn blöstu þessi eldföstu mót frá Broste við mér og það var ekki aftur snúið. Þessi mót varð ég að eignast og gat ekki beðið eftir að prófa að baka í þeim gómsæt pæ.

Berjabökur á þrjá vegu
Uppskrift dugar í eitt mót sem er um 25 cm í þvermál
- 130 g smjör við stofuhita
- 150 g hveiti
- 50 g púðursykur
- 40 g sykur
- 70 g tröllahafrar
- 350 g ber
- 60 g súkkulaði að eigin vali
- Hitið ofninn í 180°C.
- Setjið allt saman í hrærivél og hrærið rólega með K-inu þar til vel blandað saman.
- Smyrjið eldfast form með smjöri og setjið þunnt lag í botninn og aðeins upp kantana.
- Setjið berin næst yfir allt, skerið súkkulaði niður og dreifið jafnt yfir berin.
- Setjið að lokum restina af smjörblöndunni óreglulega yfir allt saman og bakið í um 30 mínútur eða þar til bakan fer aðeins að gyllast.
- Gott er að bera bökuna fram með ís og karamellusósu.

Ég notaði suðusúkkulaði og aðalbláber í eitt formið, sólber og karamellusúkkulaði í annað og hefðbundin bláber í það síðasta (og ekkert súkkulaði). Síðan bar ég bökuna fram með vanilluís og heitri karamellusósu.
Hér fyrir neðan er linkur á þessi þrjú dásamlegu form og ég mæli sko sannarlega með því að þið nælið ykkur í eintak!
Ég myndi mæla með einni uppskrift í 25 cm formið en síðan má gera 1 1/2 í 29 cm formið og 1/2 uppskrift dugar í það 18 cm. Einnig má auka og minnka við berin, kannski setja um 500 g í það stærsta og 200 í það minnsta.
Fallegu Broste Gracie tauservíetturnar sem sjást hér á myndunum fást einnig í Húsgagnahöllinni. Ég elska að punta upp með þessum fallegu servíettum, hvort sem það er hversdags eða fyrir veisluhöld.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM