Veðrið undanfarna daga kallar mögulega á meiri inniveru en annars og þá er alveg tilvalið að dunda sér aðeins við bakstur.
Þetta bananabrauð er yndislega gott og mjúkt og best volgt með nóg af smjöri og það tekur aðeins örfáar mínútur að skella í brauðið. Yfirleitt nota ég bara hefðbundið brauðform eða „jólakökuform“ eins og dætur mínar kalla það en stundum er gaman að bregða brauðinu í betri búninginn og setja deigið í eitthvað skemmtilegt kökuform líkt og myndin hér að neðan sýnir.
Ef það liggja brúnir vel þroskaðir bananar á borðinu þínu þá mæli ég með að þú prófir þessa uppskrift á næstunni!
Uppskrift (geri 1 1/2 uppskrift fyrir stærra form líkt og á myndinni)
75gr sykur
75gr púðursykur
2 stór egg
125gr brætt smjör (kælt örlítið)
2-3 stórir þroskaðir bananar – stappaðir
175 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk kanill
2 tsk vanilludropar
Aðferð
Hita ofninn 175 gráður
Sykur og egg er hrært saman, bræddu smjörlíki bætt útí og svo stöppuðum banönum.
Þurrefnunum er blandað saman í skál og sett útí (hluti og hluti í einu og skafið niður á milli). Að lokum er vanilludropunum bætt við.
Sett í vel smurt form og bakað í 45 mínútur
Verði ykkur að góðu!