Ef þú elskar súkkulaði og bananablöndu þá eru þessar bollakökur eitthvað fyrir þig. Ég er mikið fyrir súkkulaðikökur af ýmsum gerðum en einnig finnst mér nýbakað bananabrauð alveg ofsalega gott og þegar ég rakst á þessa uppskrift á netinu einn daginn varð ég auðvitað að prófa 🙂
Útkoman var afar bragðgóð og skemmtileg tilbreyting og því deili ég uppskriftinni hér með ykkur.
Súkkulaði og banana bollakökur (um 16-18 kökur)
Súkkulaðibotn
1/4 bolli mjúkt smjör
3/4 bolli sykur
1 stórt egg
1 tsk vanilludropar
2/3 bolli hveiti
2 msk bökunarkakó
Smá salt
1/3 bolli súkkulaðidropar/gróft saxað súkkulaði
Aðferð:
Hitið ofninn 180 gráður
Þeytið saman smjör og sykur þar til blandan er létt og ljós (um 3-4 mín). Bætið eggi og vanilludropum útí og hrærið þar til vel blandað, skafið niður á milli. Setjið næst hveiti, salt og bökunarkakó varlega saman við og hrærið rólega og að lokum má bæta við súkkulaðidropunum. Setjið um 1 msk af súkkulaðideiginu í hvert bollakökuform, ýtið með skeið á deigið og jafnið eins og unnt er (gott er að dýfa skeiðinni fyrst í olíu, þannig festist hún síður við deigið). Því næst útbúið þið bananadeigið.
Bananabotn
1 1/3 bolli hveiti
1 1/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
1/2 tsk kanill
Hnífsoddur negull
1 egg
3/4 bolli púðursykur
1 tsk vanilludropar
3 stórir þroskaðir bananar, stappaðir
1/4 bolli sýrður rjómi
1/3 bolli bráðið smjör
Aðferð:
Blandið hveiti, salti, lyftidufti, kanil og negul saman í skál og setjið til hliðar. Hrærið saman egg og púðursykur þar til blandan verður létt, setjið þá vanilludropa útí. Því næst er sýrðum rjóma og bræddu smjöri bætt við blönduna og svo er þurrefnunum blandað varlega saman við. Að lokum er stöppuðum bönunum bætt við blönduna og um ¼ bolli af deigi settur ofaná súkkulaðideigið í formunum (deigið á að vera þykkara en hefðbundið bollakökudeig).
Bakið í 15-18 mínútur og leyfið að kólna alveg áður en kremið er sett á.
Púðursykurs-rjómakrem
3/4 bolli mjúkt smjör
220gr rjómaostur við stofuhita
1 3/4 bolli púðursykur
1 1/2 bolli flórsykur
1 msk vanilludropar
Þeytið saman smjör og rjómaost þar til létt og rjómakennt, skafið niður á milli. Bætið púðursykri og flórsykri næst saman við og hrærið rólega þar til vel blandað og setjið þá vanilludropana útí. Þeytið því næst kremið í um 4-5 mínútur þar til það er orðið létt og vel blandað. Setjið kremið strax á kökurnar.
Njótið kæru vinir!