Það var gaman að draga frá gluggunum í morgun – mögulega er sumarið bara komið aftur, að minnsta kosti í dag 🙂
Að því tilefni langaði mig að deila með ykkur þessari skemmtilegu og einföldu hugmynd sem hentar frábærlega fyrir sólríka sunnudaga, barnaafmæli sem og önnur tilefni. Þetta er fljótlegt í undirbúningi og alveg ótrúlega krúttaralegt.
Hjúpaðir sykurpúðar
Það sem þarf:
Sykurpúðar
Candy Melts (eða annað súkkulaði)
1-3 msk olía
Grillpinnar (sú stærð sem ykkur hentar)
Kökuskraut
Aðferð:
- Stingið grillpinnum (oddhvassa endanum) langt inn í alla sykurpúðana og leggið til hliðar. Þeir eru klístraðir að innan svo pinninn festist auðveldlega og ekki þörf á að dýfa honum í súkkulaðið fyrst líkt og við gerð kökupinna.
- Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, þynnið örlítið með olíu (byrjið á 1msk og bætið við ef ykkur finnst of þykkt).
- Dýfið hverjum sykurpúða um það bil hálfa leið ofan í súkkulaðiblönduna (smekkatriði hversu langt er dýft), hallið hjúpuðum sykurpúðanum því næst lárétt yfir skálina. Snúið prikinu rólega um leið og höndin er hrist varlega til að umfram súkkulaði leki aftur ofan í skálina án þess að leka niður sykurpúðann sjálfan.
- Stráið kökuskrauti yfir hjúpaða hlutann áður en súkkulaðið nær að taka sig.
- Stingið pinnunum í frauðplast (eða annað sambærilegt) á meðan súkkulaðið storknar alveg.
- Berið fram!
Þetta er svo einfalt og fljótlegt að hægt er að gera mikið magn af hjúpuðum sykurpúðum á stuttum tíma sem hentar stundum einstaklega vel þegar maður er að flýta sér.
Hægt er að bera fram jafnt liggjandi sem standandi. Mér finnst skemmtilegt að setja M&M eða Smarties í glas og stinga pinnunum þar í, annars er líka fallegt að leggja sykurpúðana á disk/fat og bera þannig fram.
Krökkum finnst þetta skemmtilegt og spennandi og að sjálfsögðu gríðarlega bragðgott 🙂
Gleðilegan sunnudag kæru vinir!
Sniðugt og einfalt!! 🙂