Regnboga-bollakökur



Í tilefni af Hinsegin dögum fannst mér við hæfi að setja inn myndir af þessum skautlegu og skemmtilegu regnboga bollakökum.

Til þess að útbúa þessa litadýrð þarf í rauninni ekki margt, nema þá helst þessa 6 matarliti (fjólublár, blár, grænn, gulur, appelsínugulur, rauður).

Best er að útbúa vanillu kökudeig og skipta því niður í 6 skálar, lita svo deigið í þeim litum sem taldir eru upp hér að ofan. Hvert deig er sett í lítinn sprautupoka/zip-lock poka og lítið gat klippt á endann. Svo er að hefjast handa við regnbogagerð; setjið um 2msk af hverju deigi akkúrat í miðjuna á forminu og hristið aðeins niður á milli með því að lyfta forminu upp nokkra sentimetra og láta falla beint niður aftur. Gott er að setja aðeins rúmlega 2msk í fyrstu 2 litina og minnka magnið örlítið eftir því sem ofar dregur og enda í rúmri matskeið með síðasta lit, munið þó að fylla formið ekki meira en um 2/3 af heildinni.

a031

Vanillu – bollakökur

Uppskrift

1 1/4 bolli hveiti

1 1/4 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

2 egg

3/4 bolli sykur

1 1/2 tsk vanilludropar

1/2 bolli bragðdauf (ljós) matarolía

1/2 bolli “buttermilk” (1/2 tsk sítrónusafi eða edik + mjólk til að fylla upp að 1/2 bolla. Látið standa í 5 mínútur)

Aðferð

  1. Hitið ofninn 180 gráður
  2. Gerið bollakökuformin tilbúin – best er að setja pappaform í álform til að kakan haldi lagi sínu hvað best.
  3. Setjið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í skál – hrærið saman með sleif – geymið.
  4. Þeytið eggin í 10-20 sek og bætið sykrinum útí og þeytið áfram í um 30 sek, bætið við vanilludropum og olíu og hrærið aðeins áfram. Bætið svo ½ hveitiblöndunni saman við og hrærið rólega í á meðan, því næst helmingnum af mjólkurblöndunni og endurtakið þetta skref aftur þar til öll hráefnin eru komin í skálina. Munið að skafa niður hliðarnar og hrærið þar til deigið er vel blandað og kekkjalaust.
  5. Skiptið deiginu í formin þannig að þau fylli um það bil 2/3 af þeim (deigið er þunnt)
  6. Bakið í 12-14 mínútur í miðjum ofni og kælið áður en skreytt er.

Ef þið viljið setja krem á kökurnar er hægt að nota hvaða smjörkremsuppskrift sem er og lita kremið að vild, setja síðan í sprautupoka og notast við stóran stút líkt og Wilton 2D eða 1M til skreytinga.

Vanillu smjörkrem

125 gr smjör (mjúkt)

500gr flórsykur

1 egg

2tsk vanilludropar

2msk sýróp

Allt sett saman í hrærivélina og hrært rólega saman þar til kekkjalaust, skafið niður á milli.

a077

Þessar bollakökur slógu görsamlega í gegn hjá dætrum mínum og vinkonum og held ég að þær verði útbúnar ansi oft til viðbótar á komandi árum og eru tilvaldar í skrautleg barnaafmæli.

Vona þið eigið góðan laugardag!

Berglind

One Reply to “Regnboga-bollakökur”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun