Regnbogakaka



Gleðigangan er handan við hornið og efast ég ekki um að margir Íslendingar ætli að leggja leið sína í miðbæinn næsta laugardag til að taka þátt í hátíðarhöldunum! Það væri nú vel við hæfi að skella í eina regnbogaköku í tilefni dagsins og hér fyrir neðan koma leiðbeiningar  um hvernig er hægt að baka eina slíka.

Harpa Karin dóttir mín hefur mikinn áhuga á bakstri og kökuskreytingum og verð ég að segja að á tímum erum við hreint að drukkna úr kökum og góðgæti því alltaf langar okkur mæðgum að prófa eitthvað nýtt. Eftir að hún horfði á Youtube myndband með Nerdy Nummies um daginn var hún staðráðin í að baka regnbogaköku en vildi svo hafa sinn háttinn á skreytingunni sjálfri.

rainbow cake

Hér fyrir neðan tók ég saman skrefin í regnbogakökugerð eftir að hafa fylgst með litla bakarameistaranum mínum.

Innkaupalisti

  • 2 x hvítt kökumix eða 2 x þessi uppskrift 
  • 5 x Betty Crocker hvítt vanillukrem eða þreföld smjörkremsuppskrift (sjá hér að neðan)
  • Matarlitir (gulur, appelsínugulur, rauður, grænn, fjólublár og blár)
  • 2D eða 1M stjörnustútur frá Wilton
  • 20-22cm kökuform

Smjörkrem

  • 125gr smjör (mjúkt)
  • 500gr flórsykur
  • 1 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 msk sýróp

Aðferð

  • Útbúið tvöfalt vanilludeig í hrærivélinni.
  • Skiptið því jafnt niður í 6 skálar og litið með matarlit (setjið vel af lit því hann dofnar við baksturinn).
  • Bakið botnana og kælið vel (athugið að bökunartíminn er styttri en venjulega því þetta eru þunnir botnar).
  • Jafnið botnana með kökuskera/tvinna/hníf svo allir verði jafn háir.
  • Útbúið kremið og skiptið einnig niður í 6 skálar og litið með sömu litum. Gerið aðeins meira af bleiku því gott er að þekja kökuna með þeim lit því hann er efstur.

  • Byrjið að raða kökunni saman, fjólublár kemur fyrst, svo blár, grænn, gulur, appelsínugulur, rauður (bleikur) og alltaf krem af sama lit ofaná hvern botn.
  • Þekjið kökuna svo með þunnu lagi af bleiku kremi áður en stjörnurnar eru sprautaðar á.

  • Sprautið óreglulega með einum lit í einu og ef þið eruð aðeins með einn stút er þannig hægt að skola hann á milli lita.
  • Munið að sprauta stjörnurnar þétt og með nokkuð flatan botn til að þær festist vel á hliðunum.

rainbow cake

Ég hvet ykkur einnig til að kíkja á regnboga bollakökurnar hér á síðunni ef þið viljið frekari hugmyndir fyrir helgina og svo skelli ég eflaust inn fleiri litríkum færslum fyrir helgi 🙂

Allt hráefni í þessar uppskriftir fæst í Nettó

Góða skemmtun!

One Reply to “Regnbogakaka”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun