Litlar súkkulaði bollakökur dúllur



Þessar bollakökur eru ef ég má sletta „too cute to eat“, það er bara þannig 🙂

Eftir að ég kom með nokkrar svona í vinnuna einn daginn og sett mynd á Facebook hjá mér hef ég fengið fjölmargar spurningar um hvernig þetta útlit náist ásamt því hvað sé í kreminu. Ég ákvað því að skella inn nokkrum myndum og uppskriftinni með.

Kakan sjálf má vera sú súkkulaðikökuuppskrift sem ykkur þykir góð eða bara kökumix úr pakka, ég notaði uppskriftina af einföldu súkkulaðikökunni eins og svo oft áður.

Smyrjið lítil bollakökumót vel með smjörlíki, „mini-cupcakes“, fyllið hvert hólf 2/3 og bakið í c.a 8-10 mín, kælið.

Kremið er síðan alveg dásamlegt og upphaflega varð það til þegar ég var að blanda saman afgöngum eftir námskeið hjá mér. Ég átti eftir mars-karamellufyllingu, smjörkrem, súkkulaðikrem og karamellusósu og setti ég dass af hinu og þessu saman svo úr varð dýrindis krem. Síðar þróaði ég þetta örlítið og einfaldaði svo það þyrfti nú ekki alltaf að eiga allt þetta til hverju sinni.

Eftir einföldun er því uppskrifin af kreminu þessi:

100gr smjör (mjúkt)

500gr flórsykur

1 egg

2 tsk vanilludropar

2 msk sýróp

1 tsk kakó

1 ½ dl af þykkri karamellusósu

(Hef keyt Organic Caramel Sauce frá St.Dalfour en það má alveg kaupa hverja sem er, bara að hún sé mjög þykk og sprautað beint úr brúsanum – ekki hita sósuna áður)

Að sjálfsögðu má líka útbúa heimalagaða karamellusósu frá grunni eða bræða saman 2stk Mars súkkulaði, nokkrar Freyjukaramellur með smá rjóma og nota í staðinn. Munið bara að kæla niður áður en þið setjið útí uppskriftina.

Setjið öll hráefnin í hrærivélarskálina og hrærið þar til slétt og fínt. athugið að kremið þarf að vera vel stíft svo að „blúnda“ náist við sprautun, ef ykkur finnst það og lint (skeið getur ekki staðið upprétt í því), bætið þá við flórsykri þar til það hefur náð góðum stífleika.

Setjið kremið í sprautupoka með stút 2D frá Wilton og þrýstið vel á hverja köku svo „blúnda“ nái að myndast. Setjið strax kökuskraut á hverja köku svo það festist og því næst 1 stk brúnt M&M eða Smarties á toppinn og þrýstið örlítið niður.

One Reply to “Litlar súkkulaði bollakökur dúllur”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun