Þar sem það hefur verið örlítið haustlegt fremur en sumarlegt úti undanfarna daga dettur maður pínu í annan gír hvað varðar baksturinn. Í stað þess að gera eitthvað létt, litríkt eða svalandi vill maður helst að útbúa vöfflur með rjóma og heitt súkkulaði í öll mál.
Við mæðgur útbjuggum þessar kúmenbollur í vikunni og þær voru í einu orði sagt dásamlegar!
Uppskriftin er einföld og hægt er að taka bollurnar með sér í ferðalagið, lautarferðina eða skella í frystinn og eiga þegar góða gesti ber að garði.
Kúmenbollur
- 1 kg hveiti
- 1 msk salt
- 1 pk þurrger (12gr)
- ½ lítri volgt vatn
- 1 ½ dl matarolía
- 3msk kúmen
- Sólkjarnafræ eða önnur fræ til skrauts
- Setjið öll þurrefnin í hrærivélaskálina ásamt gerinu og blandið létt saman.
- Hellið volgu vatninu og matarolíunni útí og hnoðið rólega með „króknum“ þar til vel blandað.
- Stundum hef ég bætt örlítið af vatni útí ef deigið er of þurrt, stráið smá hveiti yfir, setjið rakan klút á skálina og látið hefast í 1 klst.
- Hnoðið deigið létt að nýju eftir að það hefur hefast og skiptið niður í 24-28 bollur (þetta eru frekar stórar bollur svo ef þið viljið fleiri og minni er það í fínu lagi)
- Raðið á bökunarplötu klædda bökunarpappír og látið hefast að nýju í 30 mínútur.
- Penslið með hrærðu eggi, stráið fræjum yfir (ef vill) og bakið í 200 gráður í um 10-12 mínútur eða þar til bollurnar fá gyllta áferð.
Ég var svo heppin að hafa aðstoðarbakara með mér í þetta skiptið og var því útbúið „bollublóm“ úr flestum bollunum. Á þessu heimili eru oftar en ekki búnir til ormar, blóm eða aðrar fígúrur úr bollunum og ekki bragðast þær verr með slíku móti 🙂
Bestar nýbakaðar með nóg af smjöri og osti.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó
One Reply to “Kúmenbollur”