Jarðaberjaterta og grænmetismarkaður



Eitt af leyndarmálum Mosfellsbæjar er Dalsgarður. Þar er ræktað ýmis konar grænmeti, jarðaber, rósir og margt fleira. Þegar líða tekur á sumarið er þar markaður á laugardögum og finnst okkur fjölskyldunni gaman að kíkja þangað, ná okkur í ferskt grænmeti, skoða mannlífið og fá okkur kaffi og með því.

Við mæðgur elskum jarðaber svo á dögunum voru keyptar allnokkrar öskjur á markaðnum og eitthvað varð að gera við þetta þegar heim var komið.

Í Bandaríkjunum fórum við á akur og tíndum okkur fersk jarðaber í kílóavís, það væri óskandi að einn daginn væri það hægt á Íslandi 🙂 Þar fengum við okkur Strawberry Shortcake og ákváðum við því að útbúa okkar eigin útfærslu af einni slíkri sem við deildum með ykkur hér að neðan úr þessum yndislegu jarðaberjum frá Dalsgarði.

Jarðaberjaterta – „Strawberry Shortcake my way“

  • Kransakökubotn (sjá uppskrift hér að neðan)
  • 2-3 öskjur jarðaber
  • 750ml rjómi
  • Einn pakki jarðaberjafrómas (Dr Oetker) útbúinn skv.leiðbeiningum
  • Svampbotn (sjá uppskrift hér að neðan)

Kransakökubotn

  • Tilbúið kransakökudeig í poka (400gr)
  • 100gr suðusúkkulaði
  1. Teiknið hring sömu stærðar og kökurformið sem notað er fyrir svampbotninn (20-22cm).
  2. Sprautið kransakökudeiginu í toppa aðeins fyrir innan hringinn og svo jafnt og þétt inní hringnum (það munu þó alltaf verða einhver göt á milli og er það allt í lagi).
  3. Bakið skv.leiðbeiningum á pakkanum og kælið.
  4. Bræðið suðusúkkulaðið og dreifið jafnt yfir kransakökubotninn, kælið.

Svampbotn

  • 3 egg
  • 150gr sykur
  • 50gr hveiti
  • 50gr kartöflumjöl
  1. Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
  2. Blandið hveiti og kartöflumjöli saman og hrærið varlega útí blönduna.
  3. Setjið í vel smurt form (um 20-22cm) og bakið í um 15-20 mínútur.

Undirbúningur

  1. Skerið megnið af jarðaberjunum niður (geymið nokkur til skrauts)
  2. Þeytið rjómann og setjið til hliðar.
  3. Útbúið jarðaberjafrómasinn skv.leiðbeiningum og setjið til hliðar.
  4. Takið svampbotninn í tvennt með tvinna/kökuskera.

jarðaberjaterta

Samsetning

  1. Setjið kransakökubotninn á kökudisk.
  2. Stráið 1/2 af niðurskornu jarðaberjunum yfir botninn.
  3. Setjið 1/2 af þeytta rjómanum næst.
  4. Leggið annan svampbotninn á rjómann.
  5. Setjið jarðaberjafrómasinn næst (ég blandaði smá af krömdum jarðaberjum útí minn til að bragðbæta hann) og ekki er nauðsynlegt að nota allan frómasinn (getið sett restina í skál og kælt).
  6. Hinn svampbotninn kemur næst og því næst restin af niðurskornu jarðaberjunum.
  7. Hinn helmingur rjómans að lokum og jarðaber á toppinn til skrauts.

Auðvitað er hægt að einfalda þessa uppskrift og útbúa einungis svampbotninn, raða jarðaberjum og rjóma á milli í tveimur lögum og þá eruð þið komið með hina klassísku „Strawberry Shortcake“.

Ég hvet ykkur eindregið til að heimsækja markaðinn í Dalsgarði næsta laugardag, opnar kl:10:00 og gott að koma snemma.

Annars fæst allt hráefni í þessa uppskrift í Nettó.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun