HaustkakaÁ dögunum gerði ég þessa dásamlega góðu haustköku fyrir HOME Magazine. Hún er nokkurs konar bland af gulrótarköku og bananaköku og útkoman var virkilega góð. Að útbúa ananasblómin tekur auðvitað smá tíma en þau voru algjörlega þess virði, fallegra kökuskraut hef ég varla útbúið. Hugmyndina af skreytingunni fékk ég hjá Mörthu Stewart enda elska ég að skoða síðuna hennar þegar kemur að fallegum kökum.

Kaka

 • 1 bolli matarolía (ljós)
 • 3 tsk vanilludropar
 • 1 bolli sykur
 • 1 bolli púðursykur
 • 4 egg
 • 2 þroskaðir bananar (stappaðir)
 • 1 ½ bolli rifnar gulrætur
 • ½ bolli saxaðar pecan hnetur
 • ½ bolli möndluflögur
 • 3 bollar hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 ½ tsk kanill
 • ½ tsk salt

 1. Blandið saman matarolíu, vanilludropum, sykri og púðursykri  í hrærivélarskál og hrærið saman þar til vel blandað. Bætið eggjunum saman við einu í einu og hrærið vel í á milli svo blandan verði gulleit og örlítið loftkennd.
 2. Blandið stöppuðum banönum saman við.
 3. Setjið þurrefnin saman í skál og hrærið varlega saman við eggjablönduna, smá í einu.
 4. Að lokum fara gulrætur, hnetur og möndlur út í.
 5. Spreyið 2x 20-22cm form vel með matarolíuspreyi og skiptið blöndunni jafnt á milli.
 6. Bakið við 175°C í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
 7. Kælið botnana vel eftir að þeir eru komnir úr forminu og skerið svo hvorn um sig í tvennt með kökuskera/hníf og fáið þannig fjóra þynnri botna.

Krem

 • 250 gr Philadelphia rjómaostur við stofuhita
 • 320 gr smjör við stofuhita
 • 3 tsk vanilludropar
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1,2 kg flórsykur

 1. Hrærið smjörið þar til það er létt og ljóst.
 2. Bætið rjómaosti, vanilludropum og vanillusykri saman við og blandið vel saman.
 3. Setjið flórsykur saman við blönduna í smáum skömmtum þar til allt er vel blandað og slétt.

Skraut

 • 1-2 x heill ferskur ananas (fer eftir fjölda blóma sem þið viljið)

 1. Afhýðið ananasinn í heilu lagi eftir honum endilöngum.
 2. Skerið „nibbur“ úr allan hringinn með því að nota flysjara/hníf. Með þessu móti myndast litlar holur allan hringinn sem munu gera blómin fallegri. Reynið því næst að skera það þunnar sneiðar að þið sjáið hnífinn í gegn þegar skorið er.
 3. Þerrið hverja sneið og raðið þeim á bökunarpappír á bökunarplötu.
 4. Bakið við 110°C í um 30 mínútur, snúið sneiðunum þá við og hitið áfram í um 30 mínútur eða þar til ananasinn fer að þorna. Varist að hann brenni ekki og fylgist vel með eftir að honum hefur verið snúið. Engu að síður er mikilvægt að baka hann nægilega lengi og ef enn er einhver safi í honum eða ykkur finnst hann ekki nægilega þurr þá er um að gera að snúa aftur og baka í nokkrar mínútur til viðbótar á hvorri hlið.
 5. Leggið hverja ananassneið í muffinsform/eggjabakka eða annað slíkt sem gefur kúpt form þegar sneiðin hefur þornað.
 6. Gott er að útbúa ananasblómin deginum áður en setja á kökuna saman og leyfa þeim að þorna í formunum yfir nótt.

Samsetning

 • Smyrjið vel af rjómaostakremi á milli allra laga á kökunni (x3).
 • Smyrjið því næst þunnu lagi allan hringinn, bæði á hliðar og topp til að festa kökumylsnu vel fyrir lokaumferð og leyfið að standa í um 15 mínútur áður en haldið er áfram (til að fá smá stökkan hjúp á kremið).
 • Smyrjið að nýju vel af kremi allan hringinn og fallegt er að mynda rákir/toppa með spaðanum og engar áhyggjur þarf að hafa af því að slétta kremið, það má vera óreglulegt.
 • Raðið því næst þurrkuðum ananasblómum á kökuna til að skreyta hana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun