„Naked Cake“ með súkkulaði, karamellu og vanillu ívafiÁ dögunum þegar ég var að stúdera brúðartertur með Lindu frænku spurði hún mig hvort hún ætti kannski að vera með „Naked Cake“. Ég var nú ekki mikið búin að spá í slíkri kökugerð enda kremkerling með meiru. Forvitnin dró mig í að skoða á netinu og spá aðeins í þetta og svo sá ég að ein slík prýddi síðasta blað Gestgjafans. Fyrst fannst mér þetta skrítið og hugsaði með mér að þetta væri eins og ég væri búin að grunna köku og skella á hana blómum eða ávöxtum í stað þess að klára hana til fulls. Síðan eins og með margar nýjungar þá vandist þetta vel og núna finnast mér svona kökur skemmtileg tilbreyting í kökuflóruna.

Hér fáið þið fyrstu útgáfu af svona köku frá mér og er ég nú þegar með nokkrar nýjar hugmyndir í kollinum og á án efa eftir að skella þeim hér inn þegar ég hef gefið mér tíma í að útbúa þær.

Ferlið krefst smá undirbúnings og er margþætt, sérstaklega ef þið ætlið að hafa kökuna á tveimur hæðum. Hér fyrir neðan vonast ég til að geta fært ykkur nær því að útbúa eina slíka sjálf en svo er um að gera að skoða hugmyndir á veraldarvefnum.

Naked cake

Botnar

 • 1 x Betty Crocker Devils food cake mix
 • 1 x Royal súkkulaðibúðingur
 • 1 x Betty Crocker Vanilla cake mix
 • 1 x Royal karamelllubúðingur

Bakið samkvæmt leiðbeiningum á pakka nema bætið búðingsdufti út í blönduna rétt í lokin (súkkulaði í skúkkulaði og karamellu í vanillu). Skiptið hvorri blöndu niður í tvö form, annað 20cm í þvermál og hitt 16cm í þvermál og þá hafið þið dökkan og ljósan botn í hvorri stærð. Sá dökki heldur sinni þykkt en þann ljósa má taka í sundur með kökuskera þegar hann hefur kólnað (þannig endið þið með 3 x kökubotn í hvorri stærð).

Karamellukrem

 • 260 gr púðursykur
 • 160 gr smjör
 • 100 ml nýmjólk
 • 450 gr flórsykur
 1. Bræðið púðursykur og smör saman í potti og leyfið að bubbla í um 5 mínútur á meðalhita.
 2. Bætið nýmjólkinni saman við blönduna og hrærið vel í um 3 mínútur til viðbótar.
 3. Takið af hellunni og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr, færið þá yfir í hrærivélarskál og blandið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum.
 4. Skiptið niður á 2 af 3 botnum í hvorri tegund (samtals 2 litla og 2 stóra botna).

Hvítsúkkulaðimús með Daim

 • 300 gr hvítt súkkulaði
 • 500 ml rjómi
 • 200 gr saxað Daim
 • 2 msk sykur
 1. Bræðið súkkulaðið og leggið til hliðar.
 2. Þeytið rjóma og sykur saman þar til stífþeytt.
 3. Saxið Daim mjög smátt eða maukið í blandara.
 4. Vefjið um ¼ af rjómanum saman við súkkulaðiblönduna þar til vel blandað.
 5. Setjið þá restina af rjómanum saman við og vefjið saman.
 6. Bætið söxuðu Daim saman við í lokin og skiptið svo niður á milli botnanna líkt og karamellukreminu.
 7. Kælið kökuna á meðan hjúpurinn er útbúinn.

Samsetning

 1. Setjið stóran súkkulaðbotn, karamellukrem, hvítsúkkulaðimús, vanillubotn, karamellukrem, hvítsúkkulaðimús og vanillubotn.
 2. Stingið pinnum í á milli hæða og komið minni kökunni fyrir á kökupappa til að stafla kökunni.
 3. Endurtakið samsetningu á botnum.

Kremhjúpur og skraut

 • 125gr smjör (mjúkt)
 • 500gr flórsykur
 • 2tsk vanilludropar
 • 5 msk volgt vatn
 • Ber og brúðarslör
 1. Setjið allt nema ber og blóm saman í hrærivélarskálina og hrærið rólega og skafið vel niður reglulega þar til blandan er orðin kekkjalaus.
 2. Smyrjið alla kökuna með afar þunnu lagi og skafið vel af hliðunum svo það sjáist í bera kökuna.
 3. Skreytið með hindberjum, bláberjum, rifsberjum og klipptu brúðarslöri.

Hægt er að skreyta svona köku með hverju sem er en í þetta skiptið valdi ég fersk Driscoll’s ber og brúðarslör sem ég keypti í Grænum Markaði.

Naked Cake

Það er hægt að leika sér með innihald og skraut að vild og hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir sem ég fann á netinu í leit minni af hinni fullkomnu „Naked Cake“.

 

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun