Fylltar paprikur



⌑ Samstarf ⌑
Keto

Þessar paprikur eru ekki bara fallegar til að bera fram heldur líka æðislega góðar!

Ketó

Ég fékk það hlutverk í vetur að útbúa nokkrar KETO vænar uppskriftir fyrir Gott í matinn og þessi var ein af þeim.

Fylltar paprikur

Ég er svo sannalega ekki á Ketó og held ég gæti það aldrei og dáist að fólki sem nær að taka kolvetni úr mataræðinu. Mér þykja þau allt of kær og lífið litríkara með þeim en engu að síður eru margar uppskriftir sem henta bæði Ketó fólki sem og öðrum og þessar paprikur eru klárlega í þeim hópi.

Fylltar paprikur uppskrift

  • 6 meðalstórar paprikur
  • 1 msk ólífuolía
  • 3 hvítlauksgeirar
  • ½ smátt saxaður laukur
  • 500 gr nautahakk
  • 1 dós niðursoðnir tómatar í bitum
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 x Pepperoniostur
  • Salt, hvítlaukskrydd, pipar, ítölsk kryddblanda/eða önnur krydd sem ykkur þykja góð.
  1. Skerið toppinn af hverri papriku og saxið þann hluta niður til að nýta í réttinn. Holið paprikurnar því næst að innan.
  2. Steikið hvítlauk og lauk í ólífuolíunni og bætið söxuðu paprikunni saman við og þá nautahakkinu og steikið þar til hakkið hefur brúnast vel.
  3. Hellið þá tómötum, tómatpúrru og kryddum saman við og leyfið í malla í um fimm mínútur og rífið pepperoniostinn niður á meðan.
  4. Fyllið hverja papriku til hálfs með hakkblöndu, stráið rifnum osti yfir, fyllið þá aftur með hakkblöndu og stráið aftur rifnum pepperoniosti yfir toppinn.
  5. Bakið við 180°C í um 20 mínútur.

Þessar paprikur féllu í það minnsta í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum svo ég hvet ykkur til að prófa.

Minni síðan á INSTAGRAMMIÐ mitt, það væri gaman ef þið fylgduð mér þar líka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun