Beef bourguignon útfærsla



⌑ Samstarf ⌑
Nautapottréttur

Ég elska haustið!

Það er alveg magnað hvað matarvenjur breytast í takt við árstíðir og í raun ótrúlega skemmtilegt. Með því móti er matseðilinn fjölbreyttari og núna með haustinu laumast inn ýmsar skemmtilegar og dásamlegar uppskriftir sem hefði ekki hvarflað að mér að útbúa í sumar.

Beef bourguignon

Ég er einnig sérlega hrifin af því þegar allt getur verið í einum potti/fati og mögulega hægt að vinna sér í haginn með því að elda stóran skammt og hafa restina daginn eftir líka. Það eru allir svo uppteknir eitthvað í dag að oft gefst lítill tími til að elda svo hér er á ferðinni snilldar uppskrift sem dettur klárlega inn á 2 fyrir 1 listann, hún teygði sig meira að segja inn á 3ja dag á þessu heimili hjá sumum!

Nautakpottréttur með rauðvíni

Beef bourguignon útfærsla

  • 1 kg nauta brisket (brjóstvöðvi)
  • 4 msk. hveiti
  • 1 stk. laukur
  • 4 stk. hvítlauksrif
  • 125 g kastaníusveppir
  • 600 g gulrætur
  • 500 g kartöflur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar frá Cirio
  • 2 msk. tómatpúrra
  • 2 tsk. Worcestershire sósa
  • 600 ml nautasoð
  • 200 ml rauðvín (Brolio Chianti Classic passaði fullkomlega)
  • 3 msk. púðursykur
  • 2 msk. fljótandi nautakraftur
  • 2 stk. lárviðarlauf
  • Ólífuolía
  • Salt, pipar og steikarkrydd eftir smekk
  1. Saxið niður lauk og hvítlauk og skerið niður sveppina.
  2. Skerið kartöflur og gulrætur í munnstóra bita og leggið til hliðar.
  3. Steikið kjötið upp úr olíu og kryddið til með salti, pipar og steikarkryddi, brúnið vel og takið af pönnunni.
  4. Bætið meiri olíu á pönnuna og steikið lauk, hvítlauk og sveppi þar til mýkist. Bætið þá gulrótum á pönnuna og kryddið aðeins meira.
  5. Stráið hveitinu yfir grænmetið og hellið næst soðinu, niðursoðnu tómötunum, tómatpúrrunni, rauðvíninu, worcestershire sósunni, sykri, krafti og lárviðarlaufum saman við og hrærið vel (það gæti þurft að bæta aðeins meira hveiti við ef þið viljið hafa sósuna þykkari eða soði ef þið viljið hana þynnri).
  6. Nú mega kartöflurnar fara út í pottinn og svo má lækka hitann og leyfa þessu að hægeldast í um 3 klukkustundir. Mikilvægt er að smakka réttinn til og krydda, þykkja, þynna eftir þörfum. Það má alveg setja meira/minna af krafti og sykri svo gott er að smakka þetta til þangað til þetta verður eftir ykkar höfði.
  7. Gott er að hafa gott brauð eða naanbrauð með réttinum.
Beef bourguignon

Cirio tómatarnir fást á eftirfarandi stöðum: Hagkaup, Fjarðarkaup, Melabúðinni, Nóatúni og Super 1 Hallveigarstíg.

Nauta „brisket“ spurði ég um í Kjötbúðinni og náðu þeir í það bakvið fyrir mig og sneiddu það í gúllasbita. Það má þó einnig nota annað nautakjöt í þennan rétt sem skorið er niður eða hefðbundið nautagúllas.

Beef bourguignon

Það er eitthvað við það að láta rauðvín, tómat, grænmeti og kjöt malla saman sem verður að ómótstæðilegri blöndu!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun