Fiskur & franskar



⌑ Samstarf ⌑
Fiskur og franskar

Ég veit fátt betra en „Fish&chips“ og er lykilatriði að fiskurinn sé ferskur og góður að mínu mati. Það er ekkert meira svekkjandi en að panta þennan dýrindisrétt og fá fúla og þurra fiskbita. Ef þið gerið þetta hins vegar sjálf getið þið verið viss með fyrsta flokks hráefni og þá getur útkoman ekki klikkað!

Djúpsteiktur fiskur í orlydeigi

Það er alls ekki flókið að gera orly deig og þetta deig var alveg fullkomið, bæði fyrir fisk og lauk.

Fish and chips

Ekki má heldur gleyma tartar sósunni en maðurinn minn er mikill aðdáandi slíkra sósa og þessi fékk fullt hús stiga að hans mati. Ég er meira eins og krakkarnir að fá mér tómatsósu með svona mat en á auðvitað ekki að vera að opinbera það svona fyrir alþjóð, haha!

Laukhringir

Heimagerðir laukhringir eru brjálæðislega góðir! Ef þið eruð á annað borð að djúpsteikja og gera orlydeig, þá er eina vitið að gera þetta í leiðinni.

Dúpsteiktur fiskur

Fiskur & franskar

Fiskur og laukur í orly

  • 900 g þorskhnakki
  • 2 stórir laukar
  • 300 g hveiti
  • 1 ½ tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 1 flaska bjór (áfengur eða óáfengur-330ml)
  • 2 egg
  • 3 msk. ólífuolía
  • Salt, pipar, hvítlauksduft eftir smekk
  • Um 1 ½ l af djúpsteikingarolíu/canola olíu.
  1. Blandið öllum hráefnum (nema fisk og lauk) saman í skál og pískið saman þar til deigið minnir á vöffludeig og leyfið því að standa í 20-30 mínútur á meðan þið útbúið tartar sósu og skerið niður fiskinn og laukinn.
  2. Skerið þorskhnakkana niður í ákjósanlega bita, mér fannst skemmtilegra að hafa þá aðeins lengri og grennri. Kryddið þá með salti, pipar og hvítlauksdufti.
  3. Skerið laukinn niður í um ½ – 1 cm þykka hringi og notið þá stærstu.
  4. Hitið olíuna og reynið að halda henni í kringum 180°C. Ef þið eigið ekki hitamæli er gott að miða við að hita hana á hæsta hita þar til hún er vel heit og síðan bara hafa hana á miðlungshita á meðan þið steikið upp úr henni. Eldavélin mín býður upp á hitastillingar á skalanum 0-9 og ég var lengst af með hana stillta á 6 en fór upp í 8 inn á milli í eins og hálfa mínútu til að ná upp hitanum á milli bita.
  5. Veltið fisknum upp úr orlydeiginu og setjið eins og 3-4 bita í pottinn í einu og notið töng til að snúa fisknum reglulega (hver biti tekur um 8 mínútur en allt að 10 mínútur ef bitarnir eru þykkari/stærri).
  6. Leggið bitana á eldhúspappír þegar þeir koma upp úr pottinum til þess að þeir haldist stökkir og fínir.
  7. Notið síðan afgangs orlydeigið til að útbúa laukhringi. Veltið þeim upp úr deiginu og steikið á sama hátt og fiskinn, það er betra að hafa þá á aðeins lægri hita (5-6) og leyfa þeim að vera alveg 6-8 mínútur líka til þess að laukurinn mýkist vel upp.
Fiskur í orly

Tartar sósa

  • 230 g majónes
  • 180 g súrar dill gúrkur (saxaðar)
  • ½ msk. ferskt dill (saxað)
  • ½ msk. fersk steinselja (söxuð)
  • 2 tsk. sítrónusafi
  • 1 tsk. sykur
  • ½ laukur (smátt saxaður)
  • Pipar eftir smekk
  1. Öllu hrært saman í skál og kælt á meðan fiskur og laukur er djúpsteikt.
  2. Sósan borin fram með fisknum ásamt laukhringjum og til dæmis frönskum kartöflum.
  3. Einnig er gott að kreista sítrónusafa yfir fiskinn.

Ískaldur bjór hentar vel með máltíð sem þessari fyrir þá sem slíkt kjósa.

Fish and chips

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun