
Ég er búin að vera í ömmu nostalgíukasti undanfarið og vill helst hafa lambahrygg og ömmukökur í hvert mál. Það eru nokkrar uppskriftir sem ég á eftir að útbúa á næstunni úr krúttlegu handskrifuðu uppskriftabókinni hennar en hér kemur ein af mínum uppáhalds.

Þær eru ófáar sneiðarnar sem ég hef borðað af henni þessari og man ég eftir mér sitjandi á Suðurgötunni með volga marmaraköku og ískalda mjólk á kvöldin, best í heimi!

Marmarakaka
- 170 g smjör við stofuhita
- 190 g sykur
- 2 egg
- 250 g hveiti
- 1 ½ tsk. lyftiduft
- 150 ml mjólk
- 2 tsk. vanilludropar
- 3 msk. bökunarkakó
- Hitið ofinn 180°C.
- Þeytið saman sykur og smjör þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið niður á milli.
- Blandið saman hveiti og lyftidufti og setjið saman við blönduna til skiptis við mjólkina.
- Að lokum fara vanilludroparnir útí og hrært vel.
- Setjið um 1/3 af deiginu í vel smurt formkökuform og geymið smá slettu af hvítu deigi í skál (ég set ekki alveg 1/3 því mér finnst gott súkkulaðideigið sé aðeins meira).
- Bætið bökunarkakó saman við deigið sem eftir er í skálinni og hrærið vel saman.
- Dreifið úr súkkulaðideiginu yfir það ljósa og setjið svo restina af ljósa deiginu yfir í lokin og sléttið úr.
- Dragið S-munstur fram og tilbaka með hníf (alveg niður í botn á forminu) og sléttið aðeins aftur.
- Bakið í 40-45 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu, ekki blautu deigi.

Mæli með þessari með næsta kvöldkaffi!
Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM líka