
Ég tók þátt í skemmtilegu samstarfsverkefni í vor með nokkrum öðrum matarbloggurum. Útkoman er bók sem heitir „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ og gefur bókin lesendum 120 fjölbreyttar uppskriftir frá okkur sexmenningunum.
Þessi bók er fyrri bókin af tveimur sem ég kem að fyrir jólin. Seinni bókin mín kemur út um miðjan nóvember og hlakka ég til að segja ykkur meira frá henni.

Hér erum við saman í frábæru útgáfupartýi sem haldið var í síðustu viku á Pure Deli en því miður vantar Tinnu með okkur þar sem hún forfallaðist.

Bókin er falleg upp í hillu og síðan finnst mörgum betra að hafa opna bók á borðinu þegar unnið er með uppskriftir eða til að sitja með upp í sófa og útbúa matseðil fyrir vikuna.

Hér eru nokkrar vinkonur að prufukeyra kókoskúluuppskriftina í bókinni.

Ég tók þá ákvörðun að hafa aðeins kökur og gotterí í mínum kafla í þessari bók svo kaflarnir eru klárlega fjölbreyttir. Anna gantaðist einmitt með það að á mánudögum væri flott að skoða hennar kafla og finna eitthvað hollt og gott fyrir vikuna og kíkja síðan í minn kafla fyrir helgina og ákveða hvað væri sniðugt að útbúa gott með helgarkaffinu. Það er þetta sem gerir bókina skemmtilega, María kemur með ýmislegt með spænsku ívafi og hver og ein hefur sinn stíl í matargerðinni.

Stelpurnar mínar voru með í myndatökunni fyrir bókina og þeim finnst núna spennandi að kíkja í uppskriftarbók með myndum af sér.

Bókin fæst í verslunum Pennans/Eymundsson, Heimkaup og í Hagkaup og Bónus verslunum um land allt. Hún er tilvalin í jólapakkann fyrir alla þá sem elska að dúllast í eldhúsinu!

Þið eigið að geta fundið uppskriftir við allra hæfi í bókinni og uppskriftina af þessum dásamlegu kókoskúlum sem allir elska er einmitt að finna í henni.
Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM