
Hér eru á ferðinni þrjár mismunandi tegundir af mini pizzum. Ég var að prófa mig áfram með nýja vöru frá Hatting og var útkoman svona frábærlega góð!

Um er að ræða mini pizzubotna sem ég er búin að setja mismunandi álegg á. Botnarnir eru seldir frosnir, sex saman í pakka líkt og pítubrauðin. Þeir eru þunnir, halda mýkt sinni við bakstur en fá stökka kanta. Með því að gera margar litlar pizzur getur síðan hver og einn útbúið pizzu sem hann langar í.
Botnarnir fást í Bónus.

Ég prófaði að gera pizzu með humri, mexíkópizzu og pestópizzu með hráskinku. Þær komu allar svakalega vel út og síðan gerðu stelpurnar sér pizzur með pepperoni og skinku. Botnarnir eru virkilega góðir og algjör snilld að geta skutlað sósu, osti og áleggi beint á botninn og inn í ofn í örfáar mínútur, einfaldara getur það varla verið.

Mini pizzur
Hver tillaga er fyrir eitt stykki af mini Hatting pizzabotn svo margfalda þarf hana með fjölda botna sem á að nota, gott er að miða við 1-2 pizzur á mann.

Mexico pizza
- 1 x Hatting mini pizzabotn
- 2 msk. salsasósa
- Um 80 g nautahakk
- 1 tsk. tacokrydd
- Nokkrar rauðlaukssneiðar
- Rifinn ostur
- ½ avókadó
- 3-4 kirsuberjatómatar
- Kóríander
- 2-3 tsk. sýrður rjómi
- Doritos
- Steikið hakkið upp úr tacokryddinu.
- Smyrjið salsasósu á pizzabotninn og setjið nautahakk, rauðlauk og rifinn ost yfir.
- Bakið við 230°C í um 6 mínútur.
- Skerið avókadó og tómata niður á meðan pizzan bakast og setjið yfir hana þegar hún kemur úr ofninum ásamt fersku kóríander, sýrðum rjóma og muldum Doritosflögum.

Humarpizza
- 1 x Hatting mini pizzabotn
- Pizzasósa
- Um 80-100 g skelflettur humar (nokkrir humarhalar)
- 3-4 kirsuberjatómatar
- Rifinn ostur
- Klettasalat
- Furuhnetur
- Hvítlauksolía
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Smyrjið pizzabotninn með pizzasósu.
- Setjið smá ost undir, þá humarinn (kryddið hann fyrst með smá salti, pipar og hvítlauksdufti) og niðurskorna kirsuberjatómata. Þá aftur meiri ost.
- Bakið við 230°C í um 8 mínútur (svo humarinn eldist í gegn).
- Setjið klettasalat, furuhnetur og vel af hvítlauksolíu yfir.
Ef þið viljið gera heimatilbúna hvítlauskolíu má setja eftirfarandi saman í krukku og hræra saman (geyma síðan í ísskáp með lokið á).
- 250 ml ólífuolía
- 5 x pressuð hvítlauksrif
- 1 tsk. gróft salt
- ¼ tsk. pipar
- ½ tsk. hvítlauksduft

Pestópizza með hráskinku
- 1 x Hatting mini pizzabotn
- 2 msk. grænt pestó
- Rifinn ostur
- Klettasalat
- 2 hráskinkusneiðar
- Basilika
- Parmesan ostur
- Virgin ólífuolía
- Salt og pipar
- Smyrjið pestó á pizzabotninn og rífið ost yfir.
- Hitið við 230°C í um 4 mínútur.
- Setjið klettasalat, hráskinku, basiliku og gróft rifinn parmesanost á pizzuna þegar hún kemur úr ofninum.
- Að lokum má setja smá ólífuolíu, salt og pipar.
Ég mæli eindregið með að þið prófið ykkur áfram með þessa botna en síðan má líka rista þá, gera úr þeim samloku, vefju eða annað sniðugt.

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM líka