
Möguleikar á áleggi eru óendanlegir þegar það kemur að pizzugerð. Maður á það til að festast í að gera alltaf svipaða pizzu þegar maður gerir hana sjálfur heima. Reyndar á maður það líka til að panta oftast sömu pizzu af matseðli líka þegar það á við. Oftar en ekki vill elsta dóttir mín fá meat&cheese pönnupizzu svo nú ákváðum við að prófa að útbúa okkar eigin slíka pizzu.

Þessi stóð svo sannarlega undir væntingum! Botninn er þykkur og mikilvægt er að setja vel af olíu undir hann fyrir bakstur svo hann verði djúsí eins og alvöru pönnupizza. Síðan þarf líka að hafa vel af pizzasósu og öðru áleggi og ekki skemmir fyrir að hafa hvítlauksolíu með. Ein svona pizza er mjög saðsöm, við gerðum tvær en borðuðum aðeins aðra og við erum fimm (ein lítil reyndar sem borðaði bara eina hálfa sneið).

Djúsí „Meat & Cheese“ pizza
Fyrir 4-5
Botn (þykkur pönnupizzubotn í heila skúffu)
- 2 x þurrgersbréf
- 1 msk. sykur
- 400-420 ml volgt vatn
- 560 g hveiti
- 1 msk. salt
- 1 tsk. hvítlauksduft
- 50 ml ólífuolía
- Hrærið sykri, þurrgeri og volgu vatni saman í hrærivélarskálinni og leyfið að standa í um 8-10 mínútur þar til gerið fer að bólgna og leysast upp.
- Hellið þá olíunni, saltinu, hvítlauksduftinu og hveitinu saman við og hnoðið með króknum í nokkrar mínútur.
- Setjið vel af matarolíu í botninn á ofnskúffu, alveg nálægt 50 ml.
- Fletjið deigið aðeins út á borðinu, lyftið því yfir á ofnskúffuna og þjappið og ýtið því með lófunum og fingrunum þar til það fyllir botninn á skúffunni. Ekki ýta neitt upp kantana fyrr en á eftir, hafa deigið bara jafnt yfir skúffuna alla.
- Setjið plast yfir og leyfið að hefast í um 30 mínútur.
- Þjappið þá miðjunni af botninum niður og ýtið aðeins upp á kantana, hitið ofninn í 220°C og setjið áleggið á á meðan ofninn hitnar.
Álegg
- Um 200 g beikonkurl (1 bréf)
- Um 200 g pepperoni (1 bréf)
- Pizzasósa
- Um 150 g rifinn cheddar ostur frá Gott í matinn
- Um 100 g rifinn pizzaostur frá Gott í matinn
- ½ piparostur
- Um 100 g rjómaostur frá Gott í matinn
- Svartur pipar og oregano
- Steikið beikonkurlið á pönnu/í ofni og geymið.
- Smyrjið vel af pizzasósu á botninn.
- Stráið um helmingnum af rifnu ostunum yfir botninn, rífið piparostinn niður ofan á þá og setjið skvettur af rjómaosti hér og þar.
- Stráið beikonkurli yfir ostana og raðið pepperoni yfir og stráið þá restinni af rifnu ostunum yfir og kryddið með pipar og oregano.
- Bakið í um 20-22 mínútur eða þar til kantarnir fara að brúnast.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM