
Ég elska „Bark Thins“ og þá sérstaklega með saltkringlum og salti og því ákvað ég að taka þá hugmynd upp á æðra stig og hér kemur útkoman fyrir ykkur að prófa!

Ég elska hrískökur, karamellur, dökkt súkkulaði og saltkringlur og þegar þessu er öllu blandað saman verður útkoman OFURgóð! Þessir bitar fóru í smakk til nokkurra nágranna og allir voru hreinlega að missa sig yfir þeim. Það er einfalt að útbúa þessa dásemd og hægt að gera það með nokkurra daga fyrirvara fyrir veislu og geyma í kælinum sem er auðvitað algjör snilld!

Karamellubitar með krönsi
Um 30-40 stykki
- 2 pokar Dumle karamellur (2 x 120 g)
- 750 g suðusúkkulaði
- 3 msk. sýróp
- 50 g smjör
- 200 g Rice Krispies
- Um 150 g saltkringlur
- 1 msk. rjómi
- Bræðið saman í potti 200 af suðusúkkulaði, 1 poka af Dumle karamellum, sýróp og smjör þar til allt er bráðið saman og leyfið að bubbla í um eina mínútu og takið þá af hellunni.
- Blandið Rice Krispies saman við, klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og hellið hrísblöndunni þar á og dreifið jafnt úr.
- Bræðið næst 450 g af suðusúkkulaði og smyrjið þunnu lagi jafnt yfir hrísbotninn, raðið saltkringlum þétt yfir allt saman áður en súkkulaðið storknar.
- Bræðið nú hinn Dumle karamellupokann með 1 msk. af rjóma og hrærið stanslaust í þar til kekkjalaus karamella hefur myndast. Dreifið henni óreglulega yfir saltkringlurnar.
- Að lokum má bræða restina af suðusúkkulaðinu (100 g) og dreifa því einnig óreglulega yfir saltkringlur og karamellu.
- Setjið í ísskáp þar til súkkulaðið hefur storknað og skerið síðan niður í bita.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM