Café Riis – Hólmavík

Á Hólmavík stendur fallegt hús innarlega í bænum þar sem veitingastaðurinn Café Riis er til húsa. Á heimleið okkar frá Vestfjörðum stoppuðum við þar í síðbúnum hádegismat og Bára tók sannarlega vel á móti okkur þó hvert einasta sæti í húsinu væri upptekið af svöngum ferðalöngum.

Í gamla daga var húsið kallað Riishúsið, það er elsta húsið í Hólmavík og var byggt árið 1897 af dönskum kaupmanni. Í húsinu hafa einnig verið almennar íbúðir og saumastofa en frá árinu 1996 hefur þar verið veitingstaður. Bára og Kristján hafa rekið veitingastaðinn frá árinu 2005 ásamt því að reka gamla samkomuhúsið í bænum sem er staðsett hinumegin við götuna. Veitingastaðurinn er yfirleitt opinn frá maí og fram í september ár hvert en pizzakvöld og aðrar veislur á borð við jólahlaðborð og þorrablót eru þó haldin reglulega yfir veturinn. Hjónin sjá einnig um mötuneyti fyrir skólann, leikskólann og rækjuverksmiðjuna á staðnum svo það er í nægu að snúast hjá þeim.

Húsið er á þremur hæðum, efst er koníaksstofa, á miðhæðinni er almennur veitingasalur og niðri er svokallað pakkhús þar sem hægt er að hafa minni veislur og fundi. Í sumar hefur hins vegar verið svo brjálað að gera að þau hafa nýtt öll þessi rými fyrir almenna veitingasölu og oft verið biðröð út úr dyrum!
Við fengum Báru til að mæla með því sem væri vinsælt af matseðlinum og hér fyrir neðan gefur að líta brot af girnilegum matseðli Café Riis. Bára segir að í sumar hafi lambasalatið, fiskur & franskar ásamt humarpizzunni verið vinsælustu réttirnir svo við pöntuðum þessa rétti eðlilega til að smakka ásamt fleirum.

Fiskur dagsins var þorskur og þessi diskur var svona líka fallegur og bragðgóður.

Lambasalatið var algjörlega magnað. Aldrei áður hef ég fengið franskar kartöflur í salati en þessar stökku sætu frönsku kartöflur smellpössuðu með soyamarineruðu lambakjötinu. Karamellíseraður laukurinn var síðan til að toppa þetta allt saman með fersku grænmetinu.

Fiskur & franskar í hverri höfn á okkur! Ætli við verðum ekki búin að smakka „Fish&chips“ í öllum landshlutum áður en við vitum af! Dúndurtvenna sem Café Riis var klárlega með upp á tíu með geggjaðri tartar sósu!

Humarpizza er eitthvað sem aldrei klikkar. Hér er á ferðinni pizza með humarhölum, hvítlauk og klettasalati. Ég skil algjörlega af hverju þessi pizza er búin að vera einn vinsælasti rétturinn í sumar, namm!

Svo er Margarita pizza sívinsæl og Hulda Sif var hæstánægð með þessa!

Á Café Riis kemur allt kjöt frá bændunum í Húsavík á Ströndum og fiskurinn kemur frá Dranganesi sem er næsta þorp við Hólmavík. Einnig fá þau frekari fisk ásamt gellum frá Ísafirði. Það er því sannarlega hægt að segja að hér sé um hráefni úr heimabyggð að ræða og er það einmitt það sem er svo dásamlegt við veitingastaði á landsbyggðinni.