Saumaklúbbnum fagnað



Bókin Saumaklúbburinn, saumaklúbbur, stúfull af gómsætum uppskriftum, uppskrifabók
Mynd: Árni Sæberg
María, Henný, Lukka, Lillý, Íris Thelma, Þórunn, Harpa, Berglind, Íris Huld, Ingibjörg

Nú er kominn um mánuður síðan að bókin mín, Saumaklúbburinn kom til landsins. Viðtökur hafa verið framar vonum og er ég þakklát og meyr kona þessa dagana. Ég vona innilega að elsku bókin mín komi til með að gleðja sem flesta með sínum fjölbreyttu uppskriftum og hugmyndum. Bókina á ég þó ekki alein, það voru tíu vinkonur mínar sem tóku þátt í þessu ævintýri með mér og eiga þær skuldlaust einn kafla í bókinni, þar var ég aðeins ljósmyndarinn. Mig mig langar til að segja ykkur aðeins meira frá þeirra blaðsíðum hér í smá færslu þar sem þessi kafli er einstaklega áhugaverður að mínu mati.

Súkkulaðihjúpuð jarðarber

Þetta byrjaði þannig að ég fékk þá flugu í höfuðið að fá kannski 2-3 vinkonur mínar til þess að setja saman veitingar fyrir heimboð/saumaklúbb eftir eigin höfði sem ég kæmi og myndaði og fengi uppskriftir til að setja í bókina. Þetta var hugsað sem viðbót við hina kaflana og stöku uppskriftirnar mínar og endaði á að verða örlítið lengri kafli en upphaflega stóð til því að þetta kom svo ótrúlega vel út hjá þeim! Það endaði með því að 10 yndislegar stelpu-konur í kringum mig voru tilbúnar að vera með í þessu ævintýri og úr varð dásamlegur heimsóknarkafli sem kallast í bókinni „Í heimsókn hjá…“.

Saumaklúbbur, góðar uppskriftir fyrir saumaklúbbinn eða matarboðið
Mynd: Árni Sæberg

Mig langaði að gera eitthvað sérstakt fyrir þessar elskur og afhenda þeim eintak af bókinni með formlegum hætti svo ég bauð þeim hingað heim í byrjun september í léttar veitingar og afhenti þeim bók og smá pakka í þakkarskyni. Við áttum yndislegt kvöld og síðan stóð alltaf til að halda formlegt útgáfuhóf í október eða nóvember. Við vissum hins vegar ekki þarna að Covid myndi skella á landinu með fullum þunga nokkrum vikum síðar og nú er ekkert útlit fyrir formlegt útgáfuhóf svo við skulum bara kalla þetta „mini útgáfuhóf“ tíhí!

Ostabakki í saumaklúbb, góðgæti í veislu

Matur á mbl fjallaði um þennan viðburð á dögunum og það var gaman að fá myndir af okkur öllum saman þó svo það hafi vantað hana Regínu mína.

Saumaklúbbur réttir
Mynd: Árni Sæberg

Það er ekkert partý nema það séu smá bubblur og klárlega tilefni til að skála þennan dag!

Freyðivín, bubblur í saumaklúbb

Skál!

Freyðivín í saumaklúbb

Góðir ostar, súkkulaðihjúpuð jarðarber og alls konar gúmelaði sem gerir lífið betra.

Ostar á ostabakka og meðlæti

Í bókinni, Saumaklúbburinn er ógrynni hugmynda fyrir matarboð, hittinga og huggulegar stundir með fjölskyldunni.

Bakaður ostur með pestó og grilluðum paprikum

Bakaður ostur með pestó og grilluðum paprikum er búinn að vera í uppháhaldi undanfarið og leyfði ég stelpunum auðvitað að smakka þessa dásemd!

Ostakaka í krús í saumaklúbb

Nú er hins vegar nóg komið af partýtali. Mig langar að sýna ykkur myndir úr köflunum hjá stelpunum og setja inn smá upplýsingar um þessar yndislegu vinkonur mínar. Síðan má finna uppskriftir af öllum þessum fallegu og gómsætu réttunum þeirra í bókinni.

…hjá Hörpu

Harpa Ólafsdóttir á þetta fallega heimili og hlaðborð. Hér eru á ferðinni framandi, litríkir og skemmtilegir réttir eins og henni einni er lagið. Hún er einstaklega lunkin við að útbúa gómsætan mat, elskar veislur og er snillingur þegar kemur að þemum og tekur slíkt gjarnan alla leið. Ég kynntist Hörpu fyrir um áratug síðan og elska að fylgjast með dugnaði hennar og matarást.

…hjá Henný

Henný Gunnarsdóttur hef ég þekkt í ansi mörg ár og eigum við einmitt miðjustelpurnar okkar með sólahrings millibili svo þið getið rétt ímyndað ykkur stemminguna í því fæðinarorlofi sem og síðustu ellefu árin. Þeir hafa verið margir hittingarnir og skemmtilegheitin og Henný galdrar fram dýrindis mat við hvert tækifæri og er alltaf huggulegt og gómsætt að koma í mat til hennar og Kalla. Hún útbjó alls kyns gúmelaði fyrir bókina sem þið sjáið hér og var þetta allt hrikalega gott og fallegt!

…Ingu

Ingibjörg Aradóttir eða elsku besta Ingan mín á þetta fallega matarboð. Ingu hef ég þekkt síðan fyrir tvítugt og margt höfum við nú brallað. Þau hafa verið ansi mörg heimboðin og heimsreisurnar með þessari dásamlegu fjölskyldu og munu án efa verða fleiri í framtíðinni. Inga var að fá saumaklúbbinn sinn í mat þetta kvöld og ég var enn upp á stól að taka myndir þegar þær fóru að streyma inn svo þær fengu heldur betur gómsætar veitingar þetta kvöldið.

…Írisi Huld

Íris Huld Guðmundsdóttir býður upp á lágkolvetnaveislu í bókinni. Hún er algjör heilsugúru og fyrirmynd í slíkum efnum enda heldur hún úti heimasíðunni www.lifsmark.is þar sem hún aðstoðar okkur hin við að halda okkur niðri á jörðinni. Hún töfraði hér fram dýrindis veitingar sem allar eru lágkolvetna og mikið sem þetta var allt girnilegt, meira að segja ég, sykurpúkinn gæti púllað svona mataræði með hana sem kokk! Við Íris höfum þekkst í rúman áratug og höfum við unnið á sömu vinnustöðum um árabil, allt þar til nú þegar við ákváðum báðar að elta drauma okkar uppi og vinna fyrir okkur sjálfar á ólíkum sviðum.

…Írisi Thelmu

Íris Thelma Jónsdóttir á þessa fallegu borðstofu. Við kynntumst í gegnum dætur okkar á unga aldri þegar við bjuggum báðar í Grafarvogi, fluttum síðan óvænt í sömu raðhúsalengju í Mosfellsbæ og tókum svo upp á því að eignast annað sett af litlum vinkonum fyrir nokkrum árum. Við höfum því haldið upp á sameiginleg barnaafmæli, hverfishátíðir og brallað ýmislegt undanfarin ár. Íris bauð upp á fullt af alls konar í sínu heimboði sem var hvert öðru girnilegra.

…Lillý

Málfríður Eva Jörgensen á þetta undursamlega hlaðborð. Ég hef reyndar alltaf bara þekkt hana sem Lillý og kynntumst við þegar við fluttum hingað í Laxatunguna með nokkur hús á milli okkar. Dætur okkar eru vinkonur, karlarnir okkar í pókerklúbbi og við höfum haldið ófá partýin fyrir Elínarnar okkar tvær. Lillý er meistari þegar kemur að kökuskreytingum og kann sér ekkert hóf þegar kemur að heimboðum eins og sést á þessu drekkhlaðna og girnilega hlaðborði í bókinni. Þess ber að geta að í kaflanum hennar Lillýar eru allar uppskriftir glúteinlausar og því nóg af hugmyndum fyrir þá sem eru að fá gesti í heimsókn sem ekki þola glútein eða vilja sleppa slíku í sínum veitingum.

…Lukku

Lukka Berglind Brynjarsdóttir á þetta fallega heimili í Mosfellsbænum. Við Lukka höfum þekkst meira en hálfa ævina okkar og farið í gegnum ýmis skemmtileg tímabil á leiðinni. Matarboðin hafa verið óteljandi ásamt skemmtilegum hittingum, húsmæðraorlofum og fleiru. Lukka hefur frábært auga fyrir fallegheitum en vill nú ekki viðurkenna að hún sé mikill kokkur þó svo þetta heimboð sé með þeim girnilegri sem hægt er að mæta í.

…hjá Maríu

María Gomez er matarbloggari á www.paz.is og kynntumst við í gegnum bloggheima fyrir nokkrum árum, ef svo má að orði komast. María er algjör snillingur þegar kemur að gómsætum uppskriftum og svo er hún ansi hæfileikarík þegar það kemur að því að gera fallegt í kringum sig á heimilinu. María er af spænskum ættum og galdar hér fram tapas hlaðborð á spænska vísu sem var alveg brjálæðislega gott!

…hjá Regínu

Regína Diljá Jónsdóttir á þessa undurfallegu borðstofu. Regínu hef ég þekkt í ansi mörg ár og bjuggum við á sama tíma í Seattle um stund. Við elskum að sakna Seattle saman, höfum ferðast þangað saman og munum sannarlega ferðast þangað oftar um leið og Covid gefur leyfi, svo ætlum við líka að flytja þangað saman í ellinni, tíhí. Regína er fótboltamamma fram í fingurgóma og dekrar við strákana sína með dásamlegum veitingum. Hún er alin upp við veitingahúsarekstur og ber heimboðið hennar í bókinni sannarlega þess merki, allt svo fallegt, flott og undursamlega gott.

…hjá Þórunni

Þórunn Hulda Vigfúsdóttir er fagurkeri fram í fingurgóma. Hún rekur fyrirtækið Multi By Multi og er snillingur þegar kemur að veislum. Hér galdrar hún fram rétti fyrir fjölskylduboð og slógu þessar uppskriftir algjörlega í gegn í því boði. Þórunni hef ég þekkt frá því að ég var unglingur svo það er sannarlega hægt að segja sögur þegar við hittumst og oft mikið hlegið. Hjá Þórunni eru alltaf girnilegar og góðar veitingar og eru þau hjónin mikið smekkfólk þegar kemur að heimboðum.

Það er dýrmætt að eiga góða vini og er ég þessum dömum óendanlega þakklát fyrir sitt framlag í bókinni. Heimsóknarkaflinn setur svo sannarlega skemmtilegan svip á bókina og kemur þar með fullbúnar hugmyndir fyrir heimboð, á 10 mismunandi vegu.

Uppskriftabók með góðum uppskriftum
Mynd: Árni Sæberg

Annars eru hinir fimm kaflarnir í bókinni með yfir 100 stökum uppskriftum, allt frá salötum, yfir í ostagóðgæti, aðalrétti, smárétti og kökur og kræsingar. Þess ber einnig að geta að yfir 95% af uppskriftunum í bókinni er óséð efni sem hefur aldrei birts á netinu, aðeins örfáar slíkar uppskriftir fengu að læða sér með í mismuanandi kafla þar sem þær áttu vel við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun