
Haldið ykkur fast! Þessir snúðar eru „eitthvað annað góðir“ eins og dætur mínar orðuðu það. Ég hef gert ótal útfærslur af flöffí kanelsnúðum hér á blogginu og klárlega kominn tími til að prófa eitthvað nýtt í snúðamálum!

Dætur mínar elska baguette brauð með rauðu pestó svo það lá beinast við að prófa slíka samsetningu. Þessir snúðar eru ofureinfaldir og gaman að leyfa krökkunum að taka þátt í að útbúa þá. Síðan er sniðugt að finna eitthvað skemmtilegt að gera eins og að púsla, lita eða spila á meðan deigið hefast og gera úr þessu notalega samverustund.

Pestósnúðar
Deig
- 500 g Polselli hveiti
- 1 pk. þurrger (11,8 g)
- 1 msk. sykur
- 2 tsk. salt
- 300 ml volgt vatn
- 40 ml ólífuolía
Fylling
- 250 g Sacla „Sun-Dried Tomato Pesto“
- 230 g rifinn ostur ( jöfn blanda af Cheddar og Gouda)
- 1 msk. Oregano krydd/Timian
- Setjið öll þurrefnin í skál og blandið saman.
- Hellið vatni og ólífuolíu saman við og hnoðið með króknum í hrærivélinni í um 5 mínútur (eða í höndunum, þá má hnoða aðeins lengur).
- Penslið skál með ólífuolíu og veltið deiginu upp úr svo það hjúpist olíu allan hringinn, plastið og leyfið að hefast í um 90 mínútur.
- Fletjið næst út á hveitistráðum fleti í um 40 x 50 cm ferhyrning.
- Smyrjið vel af pestó yfir allt, stráið ostinum yfir og kryddið.
- Rúllið upp frá lengri hliðinni og skiptið niður í 12 jafna snúða.
- Smyrjið eldfast mót og raðið snúðunum jafnt í það, plastið og leyfið að hefast aftur í um 30 mínútur.
- Hitið ofninn í 180°C og bakið snúðana eftir hefun í um 30-35 mínútur.

Hefðbundið rautt „Sun-Dried Tomato Pesto“ er í uppáhaldi hjá mínum dætrum en ég er hins vegar hrifin af flestum pestótegundum sem eru til og finnst gaman að breyta til.

Jomm, nomm!

Megið endilega líka fylgjast með á INSTAGRAM