Ég bakaði yfir mig af þessu dásamlega og einfalda speltbrauði fyrir nokkrum árum þegar ég var í fæðingarorlofi með yngri dóttur mína.
Eftir veisluhöld undanfarna daga og páskaeggjaát fannst mér alveg tilvalið að útbúa þetta brauð og skellti í deigið þegar ég kom heim úr vinnunni í dag. Við fjölskyldan gæddum okkur á volgu brauðinu með kvöldmatnum, sem var meira að segja eggjakaka í hollari kantinum. Eins mikill sælkeri og ég er nú þá er líka nauðsynlegt að hafa jafnvægi á hollustu og óhollustu, þó svo ég játi mig algjörlega seka um að hallast of mikið að óhollustuhliðinni oft á tíðum.
Það tekur aðeins örfáar mínútur að skella í deigið og svo þarf bara að sýna smá þolinmæði á meðan það bakast.
Speltbrauð uppskrift
- 1kg spelt mjöl
- 100 gr púðursykur
- 2 tsk natron (matarsódi)
- 1/2 tsk salt
- 1 l mjólk (ég notaði léttmjólk)
- Korn eftir smekk, um 8-12 msk af mismunandi kornum (ég átti til blönduð fræ, kúmen og sólkjarnafræ í þetta skiptið)
- Hitið ofninn 190 gráður
- Öll þurrefni sett í skál og svo mjólkinni bætt við í lokin, hrært rólega þar til vel blandað.
- Spreyið 2 brauðform með PAM matarolíu og skiptið deiginu niður (deigið er blautt í sér og ekki hægt að hnoða)
- Bakið í 40-50 mínútur
One Reply to “Speltbrauð”