„Skinny“ súkkulaði- og bananamuffinsÍris vinkona mín kíkti í heimsókn um daginn og þar sem hún er algjör heilsumanneskja þá ákvað ég að útbúa eitthvað hollt og gott handa henni. Ég bakaði speltbrauðið góða og svo prófaði ég þessa uppskrift af súkkulaði- og banana muffins sem ég fann á síðunni Sally’s baking addiction sem ég hef örugglega vitnað í nokkrum sinnum áður.

Það kom mér virkilega á óvart hvað kökurnar voru góðar og brögðust þær best á meðan þær voru volgar og nýkomnar úr ofninum. Ég þarf greinilega að halda áfram að fikra mig áfram í heilsusamlegu deildinni!

„Skinny“ Súkkulaði- og bananamuffins

 • 3 vel þroskaðir bananar
 • 135gr strásæta frá Via-Health
 • 1 egg
 • 80gr eplamauk (barnamauk)
 • 70gr speltmjöl
 • 60gr hveiti
 • 40gr bökunarkakó
 • 1tsk matarsódi
 • 1tsk lyftiduft
 • 180gr suðusúkkulaðidropar og meira til skrauts (gróft saxað suðusúkkulaði)

 1. Hitið ofninn 175°C
 2. Gerið muffinsformin tilbúin (12 stk)
 3. Stappið bananana vel og setjið í hrærivélarskálina.
 4. Hrærið sykri, eggi og eplamauki saman við bananamaukið.
 5. Sigtið saman öll þurrefnin og blandið varlega saman við blönduna.
 6. Blandið því næst súkkulaðidropunum saman við með sleif (varist að blanda of lengi).
 7. Skiptið deiginu á milli formanna og fyllið hvert form vel (nánast alveg).
 8. Bakið í 18-20 mínútur eða þar til tannstöngull/prjónn kemur út hreinn, stráið súkkulaðidropum yfir þegar þið takið úr ofninum.
 9. Kælið og njótið.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun