Snickers kaka Símstöðvarinnar



Ég var á Akureyri í síðasta mánuði í skólanum og þangað er alltaf gaman að koma. Maður fer í pínu „útlandafíling“, fer út að borða og hefur það kósý. Þrátt fyrir að hafa setið yfir bókunum nánast alla þessa ferð gáfum við Máney vinkona okkur tíma til að fara í hádegismat saman á leiðinni útá flugvöll. Við fórum á Símstöðina sem er skemmtilegur veitingastaður í göngugötunni, var víst fyrir mörgum árum síðan alvöru Símstöð og dregur nafn sitt af henni.

Þarna fengum við okkur dásamlegan kjúklingarétt og til að jafna hollustuna aðeins út fengum við okkur smá eftirrétt. Snickers kakan þeirra varð fyrir valinu (hrákaka) og alveg „óvart“ var pantaður karamellu frappó með henni.

Eins og hvað ég er nú mikill sælkeri og hef oft ekki mikla trú á heilsusamlegum kökum þá var þessi hreint út sagt dásamlega góð! Strákarnir sem eiga staðinn voru svo yndislegir að gefa mér uppskriftina og hér kemur hún fyrir ykkur.

Botninn

  • 300 g möndlur
  • 300 g döðlur (gott að láta þær liggja í bleyti í um 15 mín fyrst til að mýkja þær upp)
  • Smá salt
  • 3 tsk vanilludropar
  • 300 g lífrænt hnetusmjör – gróft
  • 3msk kókosolía fljótandi
  • 50 g saxaðar salthnetur
  1. Blandið saman möndlum og döðlum í matvinnluvél (ég notaði mixer og gerði þetta í tvennu lagi og setti jafnóðum í hrærivélarskálina).
  2. Restinni af hráefnunum blandað í matvinnsluvélina/hrærivélarskálina og blandað vel saman.
  3. Setjið smjörpappír í botninn á um 27cm springformi og þjappið í formið.
  4. Söxuðum salthnetum stráð jafnt  yfir botninn.
  5. Setjið í frysti á meðan þið útbúið karamelluna.

Karamellan

  • 150 g hlynsýróp
  • 160 g kókosolía
  • 200 g hnetusmjör – lífrænt
  • 1 tsk kakóduft
  1. Allt hráefnið sett í blandara á lágum hraða þar til vel blandað og létt í sér.
  2. Hellið blöndunni yfir botninn/salthneturnar og dreifið jafnt úr.
  3. Setjið aftur í frysti á meðan súkkulaðið er útbúið.

Súkkulaðið

  • 150 g kókosolía fljótandi
  • 120 g kakóduft
  • 150 g agave sýróp
  1. Allt sett saman í hrærivélarskálina og blandað þar til slétt og fellt.
  2. Hellt yfir karamelluna og sett í frysti í 15-30 mínútur.

Gott er að geyma kökuna í kæli og taka út um 30 mín áður en hún skal skorin niður.

Einnig væri hægt að setja uppskriftina í ferkantað form, skera í litla teninga og frysta í skömmtum til að eiga hollt og gott góðgæti til að grípa til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun