Fyrr í ágúst fórum við nokkrar vinkonur á námskeið hjá honum Halldóri konfektgerðarmeistara í Chocolate Trailer-num hans niðri í bæ. Þetta var meiriháttar skemmtilegt og þá sérlega þegar hann tók súkkulaðidansinn með okkur! Á námskeiðinu lærðum við að tempra súkkulaði og búa til fyllta ofurgómsæta súkkulaðimola. Ég verð að játa mig seka að hafa aldrei áður gert svona konfekt þrátt fyrir að vera sá sælkeri sem ég er. Nú er ég hins vegar búin að læra hvernig á að tempra súkkulaði ásamt annarri súkkulaðitækni og panta nammihitamæli á netinu þannig að nú verður heimagert konfekt útbúið fyrir þessi jólin.
Súkkulaðivagninn er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og mögulega bara í heiminum og hefur hann fengið ómælda athygli ferðamanna enda hver vill ekki læra að útbúa þessi krúttheit og taka um leið heim með sér fallega Íslandsmola!
Grein um vagninn birtist á Lonely Planet um daginn og ég sé hreinlega fyrir mér að erlendir ferðamenn muni standa í röðum til að fá að taka þátt og mæli svo sannarlega með þessu fyrir vinnustaði, saumaklúbba og aðra sem vilja eiga gæðastund saman.
Halldór að störfum og þátttakendur vigta súkkulaði.
Já!!! Það subbast allt út í súkkulaði, en það er líka bara allt í lagi, sumir settu óþarfa svettu hér og þar til þess að þurfa að „hreinsa“ betur til hjá sér. Við lærðum líka að útbúa fyllingu úr karamellusúkkulaði með sjávarsalti frá Nóa Siríus og viskí 🙂
Molarnir eru fallegir og fyllingin æðisleg, síðan fá allir svona fallegan poka til að taka molana með í heim.
Fyrir áhugasama þá er hægt að bóka sig á námskeið á netinu á heimasíðu Chocolate Trailer