Rakst á þessa uppskrift um daginn á síðunni „Money Saving Mom“ og hreinlega varð að prófa. Molarnir voru dásamlega góðir og gott að eiga þá í frystinum og geta gripið sér einn og einn. Þessa bita þarf ekki að baka og því tekur enga stund að útbúa þá!
Súkkulaði haframjölsklattar
- 1 bolli hnetusmjör
- ½ bolli hunang
- ½ bolli kókosolía
- 2 bollar gróft haframjöl
- 1 bolli kókosmjöl
- 1 bolli saxaðar hnetur (hér notaði ég Macadamia og Cashew)
- 1 bolli suðusúkkulaðidropar
- 1 tsk vanilludropar
- Bræðið hnetusmjör, hunang og kókosolíu í potti við lágan/meðalhita þar til vel blandað. Fylgist vel með, hrærið í allan tímann og passið að blandan brenni ekki við, takið af hitanum.
- Bætið haframjöli, kókosmjöli, súkkulaðidropum, hnetum og vanilludropum saman við og blandið saman með sleif
- Klæðið um 25×25 cm kökuform með bökunarpappír og þjappið blöndunni niður í formið.
- Kælið í að minnsta kosti klukkustund og skerið síðan í litla bita.
- Gott að eiga þessa bita í frystinum og taka nokkra út í einu til að gæða sér á.