
Ég hef lengi ætlað að prófa að útbúa hasselback kartöflur og lét loksins verða af því. Tinna og Gunnsteinn gáfu okkur ótrúlega sniðugt lítið trébretti fyrir nokkrum árum (já, tíminn líður allt of hratt) sem er sérhannað til að skera ekki niður úr kartöflunni og auðveldaði það verkið til muna.

Rauðvínssósan var dásamleg með Gran Coronas rauðvíninu frá Torres og þessi samsetning af máltíð fær hina bestu einkunn.

Lambalæri með rauðvínssósu og hasselback kartöflum
Fyrir 4-6 manns
Læri
- 1 stk læri (um 2,5 kg)
- Bezt á lambið kryddblanda
- Leyfið kjötinu að ná stofuhita og kryddið vel.
- Pakkið inn í álpappír og grillið um 45 mínútur og takið þá úr álpappírnum.
- Grillið lærið þá stutta stund bert á grillinu til þess að fá góða grillhúð á það og leyfið síðan að standa í um 15 mínútur áður en þið skerið það niður.
Rauðvíns-sveppasósa
- 250 g sveppir
- 40 g smjör
- 500 ml rjómi
- Salt, pipar, hvítlauksduft
- 1 tsk kjötkraftur
- 1 tsk púðursykur
- ½ dl Gran Coronas rauðvín frá Torres
- Steikið sveppina upp úr smjöri þar til þeir mýkjast, kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
- Hellið rjómanum saman við og leyfið að malla þar til sósan þykknar, bætið krafti og sykri saman við og mallið áfram.
- Bætið að lokum rauðvíni saman við sósuna og berið fram með lærinu.
Hasselback kartöflur
- Bökunarkartöflur (4-6 stk)
- 100-150 g smjör
- Gróft salt, pipar
- 2 pressuð hvítlauksrif
- Fersk steinselja
- Skerið þunnar raufar í kartöflurnar án þess þó að skera alveg í gegn (skiljið smá kartöflubotn eftir sem heldur kartöflunni saman).
- Bræðið smjör og setjið um 1 msk af saxaðri steinselju saman við, hvítlaukinn og saltið örlítið og piprið.
- Penslið smjöri vel á hverja kartöflu og ofan í allar raufar.
- Bakið í ofni við 190°C í um klukkustund eða þar til kartöflurnar mýkjast.
- Gott er að pensla smjöri nokkrum sinnum á kartöflurnar meðan þær eru í ofninum og líka þegar þær eru teknar úr í lokin og þá líka strá smá steinselju yfir og grófu salti.
Salat
- Klettasalat, veislusalat eða annað sem ykkur þykir gott
- Tómatar
- Paprika
- Vínber
- Fetaostur
- Skerið niður grænmetið að vild og berið fram.

Við fengum góða vini í mat og ekki var mikið eftir af þessari dásamlegu máltíð og rauðvíni í lok kvölds.

Rauðvínið passaði einstaklega vel með lambakjötinu og í sósuna.
Mæli með þið fylgist með Gotterí á INSTAGRAM