Sítrónukjúklingur og bakaður blómkálshaus



Kjúklingaleggir í fati

Ég er að detta í haustgírinn hérna á blogginu svo núna fara kósý uppskriftir að detta inn hver af annarri!

Sítrónukjúklingur

Þessi réttur er súpereinfaldur og allir elska hann! Öllu skellt í fat og gengið frá og lagt á borð á meðan þetta mallar í ofninum.

Bakað blómkál

Hér sjáið þið bakaðan blómkálshaus sem var svoooooo góður að þetta verður klárlega aftur á boðstólnum hér fljótlega.

Ég fór á grænmetismarkaðinn að Reykjum hér í Mosfellsbæ en hann er opinn síðdegis alla virka daga á haustin. Þar er hægt að fá brakandi ferskt grænmeti sem hreinlega biður mann um að borða sig.

Ég var bara á leiðinni að ná mér í kartöflur fyrir sítrónukjúklinginn þegar ég sá þennan ofurfallega skrautblómkálshaus. Ég var ekki viss hvað ég ætlaði að gera við hann en fannst hann einfaldlega of fallegur til að láta hann eiga sig. Ég googlaði aðeins og ákvað að baka hann í heilu lagi og sjá hvernig það kæmi út og namm!!! Þetta er algjört lostæti.

Sítrónukjúklingur og bakaður blómkálshaus

Fyrir 4-5

  • 16-18 stk. kjúklingaleggir
  • ½ kg litlar kartöflur/smælki
  • 2 stk. sítróna
  • Ólífuolía
  • Rósmarín, salt, pipar, hvítlaukskrydd og kjúklingakrydd eftir smekk.
  • Blómkálshaus
  • 2 stk. pressuð hvítlauksrif

Kjúklingur – aðferð

  1. Hitið ofninn 185°C.
  2. Þerrið og kryddið kjúklingaleggina með ofangreindum kryddum.
  3. Hellið kartöflunum í eldfast mót og veltið upp úr ólífuolíu og kryddunum, gott er að skera þær til helminga eða í fernt ef þið fáið ekki smælki svo þær verði tilbúnar á sama tíma og kjúklingurinn.
  4. Raðið kjúklingaleggjunum ofan á kartöflurnar og stingið sítrónusneiðum hér og þar og kreistið safann úr ½ sítrónu yfir allt saman.
  5. Bakið í ofni í 35-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er gegnsteiktur og kartöflurnar mjúkar.

Blómkálshaus – aðferð

  1. Hitið ofninn 185°C.
  2. Setjið blómkálið í eldfast mót/pott sem hægt er að loka (einnig hægt að nota álpappír yfir ef þið eigið ekki slíkt).
  3. Setjið um 120 ml af ólífuolíu í skál og vel af kryddum saman við og pressuðum hvítlauknum.
  4. Penslið vel á blómkálshausinn og leyfið olíu að leka vel inn á milli þar sem hægt er.
  5. Setjið lokið/álpappírinn á og bakið í um 35 mínútur eða þar til kálið mýkist, takið þá lokið af og eldið áfram í um 5 mínútur til að fá örlítið stökkari áferð.
Kjúklingur í fati

Megið endilega fylgja mér á INSTAGRAM líka!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun