Naut og bernaise



⌑ Samstarf ⌑
Nautaribeye og bernaise sósa

Einn uppáhalds maturinn okkar er nautaribeye með bernaise svo hér kemur útfærsla af slíkri máltíð fyrir ykkur að njóta. Bernaise sósuna kenndi Kalli vinur okkar mér að gera í sumarbústaðarferð fyrir nokkrum árum. Aðferðin var skráð í „notes“ í símanum og hefur verið gerð margoft síðan og aðeins klikkað einu sinni hjá mér en þá þeytti ég eggjarauðurnar ekki nógu lengi og því er bannað að vera óþolinmóður þegar kemur að því. Ég grínaðist í honum í gær að ég væri nánast farin að geta gert sósuna blindandi og hann ætti nú ekkert að vera að skipta sér af sósugerðinni hjá mér þegar hann gerði sig líklegan til að taka völdin yfir hrærivélinni, hahaha!

Nautakjöt með bernaise, aspas, kartöflum og rauðvíni

Meðlætið þarf ekki að vera flókið en hér eru kramdar kartöflur, smjörsteiktur aspas og bernaise sósa með steikinni ásamt góðu rauðvíni.

Nautaribeye og bernaise

Fyrir 4-5

Nautaribeye

  • 3-4 nautaribeye steikur (fer eftir stærð og þykkt)
  • Smjör til steikingar
  • Salt, pipar og gott steikarkrydd
  1. Hitið ofninn 160°C.
  2. Bræðið smjör á pönnu og steikið hvora hlið á háum hita í um 1-2 mínútur (fer eftir þykkt) og kryddið báðar hliðar.
  3. Færið steikurnar yfir í eldfast mót, hellið smjörinu af pönnunni yfir og eldið í ofni þar til kjarnhiti nær 48°C.
  4. Takið steikurnar þá út úr og leggið álpappír þétt að þeim þar til kjarnhiti nær um 57-58°C (fyrir medium-rare steik).
  5. Fjarlægið álpappírinn og ausið smjörinu úr botni fatsins yfir steikurnar og kryddið með örlitlu af steikarkryddi í viðbót, hvílið kjötið í um 10  mínútur áður en það er skorið niður.
Naut og bernaise

Bernaise sósa

  • 8 eggjarauður
  • 500 g smjör
  • 2 msk. Bernaise essens
  • 1-2 msk. fljótandi nautakraftur
  • Pipar og salt eftir smekk
  • 3-4 msk. Estragon krydd
  1. Bræðið smjörið í potti og leyfið því að kólna þar til það er ylvolgt (ef það er of heitt eru meiri líkur á að sósan skilji sig). Ef þið eruð í tímaþröng er gott að hella smjörinu úr pottinum í annað ílát til að það sé fljótara að kólna niður.
  2. Þeytið á meðan eggjarauðurnar þar til þær þykkjast og lýsast (um 5 mínútur).
  3. Bætið þá smjörinu saman við í mjórri bunu og hrærið á meðan á lágum hraða.
  4. Bætið restinni af hráefnunum saman við og þeytið stutta stund og berið strax fram.

Smjörsteiktur aspas

  • Gott búnt af ferskum aspas (c.a 15 stönglar)
  • 3 hvítlauksrif (söxuð smátt niður)
  • 100 g smjör
  • Salt og pipar eftir smekk
  1. Skerið endana af aspasnum (um 2 cm neðan af).
  2. Bræðið smjörið á pönnu við meðalháan hita og setjið hvítlaukinn út á.
  3. Þegar hvítlaukurinn fer aðeins að brúnast má bæta aspasnum við og velta honum reglulega upp úr smjöri/hvítlauk þar til hann fer að mýkjast (um 5-8 mínútur).
  4. Kryddið með salti og pipar eftir smekk og berið strax fram.
Kramdar kartöflur í ofni

Kramdar kartöflur með parmesan

  • Um 10 meðalstórar kartöflur eða fleiri minni
  • Virgin ólífuolía
  • Gróft salt, pipar, söxuð steinselja
  • Parmesan ostur
  1. Sjóðið kartöflurnar þar til þær mýkjast.
  2. Leggið bökunarpappír í ofnskúffu og hellið smá ólífuolíu yfir hann.
  3. Raðið kartöflunum því næst í skúffuna og kremjið þær lauslega niður með glasi/kartöflustappara.
  4. Stráið aftur vel af ólífuolíu yfir ásamt grófu salti og pipar.
  5. Rífið að lokum parmesan ost yfir og bakið í 200° heitum ofni í um 15 mínútur eða þar til kartöflurnar fara að gyllast og verða stökkar að utan.
  6. Stráið þá smá saxaðri steinselju yfir (má sleppa).
Rauðvín og naut

Pago del Cielo Celeste Reserva rauðvínið er kröftugt vín sem hentar vel með nautasteik sem þessari.

Nautaribeye með sósu og meðlæti

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun