
Það er fátt betra en nýbakaðir, dúnmjúkir kanilsnúðar með ísköldu mjólkurglasi. Þegar marsípani er bætt í uppskriftina verður gott síðan enn betra og þessir snúðar stóðu svo sannarlega undir væntingum!

Ég notaði í deigið sömu uppskrift og af Himnesku kanilsnúðunum en breytti bæði fyllingunni og glassúrnum.

Dúnmjúkir marsípansnúðar
Deig
- 120 ml volgt vatn (+ 1 msk sykur)
- 1 pk þurrger (11,8 g)
- 1 egg
- 180 ml nýmjólk
- 1 tsk. salt
- 50 g sykur
- 60 g brætt smjör
- 1 tsk. vanilludropar
- 530 g hveiti
- Setjið volgt vatn og 1 msk sykur í skál, hrærið þurrgerinu saman við og látið standa í um 5 mínútur eða þar til þurrgerið fer að freyða.
- Setjið „krókinn“ á hrærivélarskálina og hrærið saman egg, mjólk, salt, sykur og bráðið smjör á lágum hraða þar til vel blandað.
- Bætið við gerblöndunni og vanilludropunum og blandið saman.
- Því næst má bæta hveitinu saman við í nokkrum skömmtum og hræra á meðalhraða í um 5 mínútur. Takið deigið næst úr hrærivélarskálinni og „klappið“ saman í góða kúlu (ef það er of klístrað má bæta örlitlu hveiti saman við að reynið að hafa það eins blautt og þið getið).
- Penslið skál með matarolíu og veltið deigkúlunni upp úr olíunni, setjið plast yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 2 klukkustundir eða þar til deigið hefur um það bil tvöfaldað stærð sína.
- Hellið deiginu úr skálinni á vel hveitistráðan flöt og stráið smá hveiti yfir deigið sjálft. Þrýstið deiginu með fingrunum til beggja hliða þar til það hefur myndað rétthyrndan flöt sem er um það bil 30 x 40 cm.
Fylling
- 80 g Odense marsípan
- 80 g smjör við stofuhita (+ 50 g brætt smjör til að pensla yfir deigið í lokin)
- 80 g sykur
- 80 g púðursykur
- 2 msk. kanill
- ½ tsk. möndludropar
- Blandið öllum hráefnunum saman í skál, stappið saman með gaffli og dreifið jafnt úr yfir deigið.
- Rúllið þétt upp (frá lengri hliðinni). Skerið því næst í 12 jafna hluta (mér finnst best að skipta fyrst í miðju, þeim hlutum svo í tvennt og svo öllum í þrennt)
- Smyrjið skúffukökuform/eldfast mót vel með smjöri, raðið snúðunum með jöfnu millibili í formið, plastið og leyfið snúðunum að hefast aftur í um klukkustund.
- Hitið ofninn í 175 gráður.
- Penslið snúðana með bræddu smjörinu og bakið í um 20 mínútur eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir. Takið snúðana úr ofninum og útbúið glassúrinn.
Glassúr
- 60 g brætt smjör
- 200 g flórsykur
- 3 msk. rjómi
- 1 tsk. vanilludropar
- ½ tsk. möndludropar
- ¼ tsk. salt
- Möndluflögur til skrauts
- Pískið allt saman í skál og smyrjið yfir snúðana meðan þeir eru enn aðeins volgir.
- Stráið möndluflögum yfir til skrauts.

Marsípan er í miklu uppáhaldi hjá mér og það get ég sagt ykkur að mér leiddist alls ekki að smakka þá þessa!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM