
Rifinn kjúklingur í BBQ sósu á pizzu er snilld, þetta hreinlega getur ekki klikkað.

Ég keypti tilbúinn grillaðan kjúkling til að rífa niður og notaði frosna mini pizzabotna frá Hatting. Þetta tók enga stund og var alveg æðislega gott!

BBQ pizzur með kjúkling á grillið
Fyrir 4-6 manns
- 8 x mini pizzabotnar frá Hatting
- Sweet BBQ sósa
- 1 grillaður kjúklingur
- 1-2 rauðlaukar (eftir stærð)
- Rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
- Appelsínugult Doritos
- Sýrður rjómi
- Kóríander
- Smyrjið þunnu lagi af BBQ sósu á hvern pizzabotn og stráið smá mozzarella osti yfir.
- Rífið kjúklinginn niður og blandið BBQ sósu saman við. Ég notaði um 10 matskeiðar af sósu en þetta er smekksatriði. Þið viljið hafa næga sósu en samt ekki of mikla.
- Skerið rauðlauk í sneiðar og raðið rauðlauk næst á pizzabotninn, því næst vel af kjúkling í BBQ, aftur smá rauðlauk og svo cheddar osti og muldu Doritos.
- Hafið bökunarpappír undir og hitið við meðalhita (óbeinan) á grillinu í 4-5 mínútur. Fylgist bara með að botninn brenni ekki en gott það komi smá rákir í hann.
- Þegar pizzan er komin af grillinu má setja sýrðan rjóma og kóríander ofan á.

Við notum þessa pizzabotna ótrúlega mikið. Það er algjör snilld að eiga þá í frystinum fyrir mismunandi útfærslur hverju sinni. Þetta skiptið gerðum við líka margarita pizzur og þær voru aðeins í um 3 mínútur á grillinu og Hulda Sif 3ja ára borðaði heila litla pizzu…sem er frekar mikið á hennar mælikvarða svo það eru klárlega góð meðmæli, haha!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM