SnæfellsnesLöngufjörur – Búðir – Arnarstapi – Hellissandur – Ólafsvík – Grundarfjörður

Traðir Guesthouse, hestaferð á Löngufjörum

LOKSINS gerðumst við fjölskyldan túristar á Snæfellsnesi. Það er búið að vera á „bucket“ listanum í nokkur ár, við reynt að leigja þar bústað án árangurs og plön einhverra hluta vegna legið til annarra landshluta. Nú var hins vegar tíminn okkar þar og almáttugur minn hvað Snæfellsnesið er undurfallegt með náttúruperlur í hverju horni.

Hér ætla ég að fara yfir ferðalagið okkar um Snæfellsnesið og segja ykkur frá ýmsum áhugaverðum stöðum sem vert er að heimsækja. Við tókum þetta ekki alveg í þessari röð en ég hef hér raðað þessu upp líkt og keyrt sé Snæfellsneshringinn fyrir utan Stykkishólm svo auðveldara sé fyrir ykkur að átta ykkur á hverju og einu. Einnig er að finna kort af þessum stöðum neðst í færslunni. Stykkisólminn fagra ætlum við að geyma til betri tíma og segja ykkur frá síðar.

Ölkelda

Ölkelduvatn Mineral Spring er áhugaverður staður. Þar kemur kolsýrt vatn beint upp úr jörðinni og hægt að fá sér af krana sem þar er staðsettur. Óvenju mikið af steinefnum er í þessu vatni og hefur það meðal annars verið nýtt til lækninga.

Traðir Guesthouse

Traðir Guesthouse var næsti áfangastaður og þar er ýmiss konar þjónusta í boði hjá Lydíu og hennar fólki. Við fórum þangað á hestaleiguna til þess að geta farið í reiðtúr á Löngufjörum. Það er draumi líkast að þeysast um á hestbaki í ljósum sandinum. Hins vegar er mikilvægt að skoða sjávarfallaspána og hafa það á hreinu þegar pantað er að það sé fjara svo hægt sé að þvera ána og komast út á sandinn.

Traðir Guesthouse, hestaferð á Löngufjörum

Elín Heiða er forfallin hestaáhugamanneskja og henni þótti þetta klárlega toppurinn á ferðinni!

Traðir Guesthouse, hestaferð á Löngufjörum

Traðir Guesthouse bjóða einnig upp á ýmis konar aðra þjónustu. Þar er tjaldsvæði, fjölbreyttir gistimöguleikar, kaffhús og einnig er þar hægt að kaupa veiðileyfi.

Rauður hestur á rauðum sandi, hversu fallegt!

Ytri Tunga

Nokkrum mínútum eftir að haldið var frá hestaleigunni komum við að Ytri Tungu. Þar eru oft selir í bunkum og einnig gott að kíkja þangað þegar fjara er til þess að sjá þá betur. Það þarf að ganga smá spotta meðfram fjörunni og út á tangann til að bera þá augum en þar voru þeir, líklega um 30-40 talsins.

Þessi var í það minnsta til í þessa göngu því hún vissi hvað biði á hinum endanum.

Rauðfeldsgjá

Rauðfeldsgjá er virkilega flottur staður að heimsækja. Það er stutt ganga upp fjallshlíðina frá bílaplaninu og gengið er inn í sprungu á fjallinu. Ævintýralegt og skemmtilegt!

Búðir eru fallegur staður til þess að koma við á. Þar er ljós fjara, falleg kirkja og gaman að vaða og sulla fyrir börn sé veðrið gott.

Búðir

Við komum við þar eitt kvöldið eftir langan dag en það er ekki langur gangur niður á ströndina og gaman að rölta þarna um.

Arnarstapi Stapafell

Þá er það Arnarstapi, þar gistum við í bústað í nokkrar nætur og fórum í dagsferðir þaðan. Það er hins vegar af nægu að taka á Arnarstapa og við fórum í göngtúra þar um svæðið alla daga og hér fyrir neðan koma sniðugar hugmyndir fyrir þetta svæði.

Arnarstapi Bárður Snæfellsás

Bárður Snæfellsás á að hafa verið hálfur maður og hálft tröll í þjóðsögunum og stelpurnar kíktu á steinakarlinn eins og þær kölluðu hann á hverjum degi.

Arnarstapi Gatklettur

Þegar gengið er niður stíginn á Stapanum má sjá mikið fuglalíf, kletta og fegurð. Gatklettur stendur þar og er ótrúlega fallegur.

Sjáið þessa fegurð!

Arnarstapi brúin

Sé gengið eftir stígnum neðst á Stapanum í átt að höfninni er hægt að finna „Brúna“ sem hér sést. Hún lætur ekki fara mikið fyrir sér og þetta er alls ekki eins glæfralegt og það lítur út fyrir að vera. Það þarf í raun að fara alveg fram á brúnina við fuglabjargið hér nær okkur til að ná svona mynd svo varist að ganga hreinlega framhjá þessum stað eins og við gerðum næstum því.

Á Arnarstapa er síðan frábær aðstaða hjá Arnarstapa Center en þar eru ýmsir gistimöguleikar í boði ásamt því sem þau eru með veitingastað sem opinn er allan daginn.

Þar fengum við okkur bæði kvöldmat eitt kvöldið og kíktum í kaffi, getið lesið nánar um veitingastaðinn í þessari færslu hér.

Fallegt er að ganga niður að höfninni og þar er flottur útsýnispallur til að ná mynd af Stapafellinu fagra….varið ykkur bara í kríunum á leiðinni! Hahaha!

Arnarstapi Stapafell

Hér má sjá útsýnið frá útsýnispallinum, Snæfellsjökull er þarna í baksýn þó svo skýin séu aðeins að fela hann þarna.

Hellnar gönguleið

Að ganga yfir á Hellnar frá Arnarstapa er ævintýri líkast. Þið farið neðst á stíginn frá Bárði Snæfellsás og gangið til hægri meðfram sjónum. Ætli við höfum ekki verið um 40 mínútur hvora leið með eina 3ja ára sjálfstæða dömu sem gekk þetta allt sjálf.

Við fengum æðislegt veður, logn og hlýtt svo allir nutu göngunnar í botn og þvílík fegurð að ganga þessa leið.

Þegar yfir er komið er niðri við fjöruna lítið kaffihús sem heitir Fjöruhúsið og þar má segja að útsýnið sé í lagi!

Nýbakaðar vöfflur og heitt súkkulaði voru sannarlega fín verðlaun fyrir duglega göngugarpa.

Þessi sko!

Fjaran á Hellnum er spennandi og þar vorum við heillengi að fleyta kerlingar og leika okkur.

Lóndrangar

Nokkrum mínútum frá Arnarstapa eru Lóndrangar. Við byrjuðum einn ævintýradaginn okkar þar og það var þoka og rigningarúði en samt voru þeir svo fallegir.

Lóndrangar

Hægt er að ganga niður að þeim og yfir að Malarrif Lighthouse en við ákváðum þennan daginn að keyra bara á milli þar sem veðrið var ekki alveg að vinna með okkur.

Malarrif lighthouse

Hér eru stelpurnar við vitann á Malarrifi.

Eftir góðan morgunverð í bústaðnum einn daginn kíktum við niður í Vatnshelli og það var skemmtileg upplifun.

Þar er langur hringstigi sem fer með þig niður í hellinn og stelpunum fannst þetta spennandi ævintýri.

Næsti áfangastaður á Snæfellsneshringnum er Djúpalónssandur. Þar er ýmist hægt að ganga út á útsýnispall og horfa niður á sandinn eða ganga niður hlíðina til þess að skoða hann í meira návígi.

Djúpalónssandur

Þar liggur meðal annars brak af skipi sem þar fórst fyrir mörgum árum og hægt að lesa sér til um söguna niðri við sandinn.

Skarðsvík beach

Skarðsvík er strönd sem allir ættu að prófa að heimsækja. Þar er undurfallegt, ljós sandur og við ætluðum aldrei að ná stelpunum heim!

Skarðsvík beach

Þessi litla snúlla okkar naut sín heldur betur í Skarðsvík.

Svörtuloft lighthouse

Svörtuloft lighthouse er síðan innar en Skarðsvík á sama afleggjara. Risastór og appelsínugulur viti sem gaman er að skoða.

Næsti viðkomustaður á hringnum er Hellissandur. Þar eru falleg listaverk sem prýða mörg húsanna ásamt ýmsum áhugaverðum stöðum.

Sjóminjasafnið Hellissandi

Eftir að hafa skoðað öll listaverkin kíktum við á Sjóminjasafnið á Hellissandi.

Þar er ýmislegt áhugavert að skoða, bæði úti og inni. Uppstoppaðir fuglar af öllum stærðum og gerðum, gömul skip og ýmsir gamlir munir sem tengjast sjómennsku og fleiru.

Stelpurnar voru hæstánægðar með þessa heimsókn og fannst gaman að skoða og spekúlera.

Á Hellissandi er dásamlegur veitingastaður sem heitir Viðvík og mælum við með heimsókn þangað fyrir ykkur sem eruð á ferðinni.

Þar er meðal annars brjálæðislega gott sushi og margt fleira. Þið getið lesið nánar um þennan yndislega stað í sérstakri færslu hér á blogginu.

Næst keyrðum við í gegnum Rif og kíktum þar á rúntinn á leið okkar til Ólafsvíkur.

Við elskum að keyra niður að höfn í minni bæjum þegar við erum að ferðast og hér sjáið þið Ólafsvíkurhöfn í þokunni.

Ólafsvíkurkirkja trónir síðan yfir bænum og er virkilega falleg bygging.

Veitingastaðurinn SKER er niðri við höfnina á Ólafsvík með dásamlegan mat.

Við fengum okkur hádegismat þar einn daginn og þið getið lesið nánar um þá heimsókn hér.

Kirkjufell og Kirkjufellsfoss

Síðasti bærinn sem við skoðuðum á Snæfellsnesi í þessu ferðalagi var Grundarfjörður. Þar er meðal annars undurfallegt fjall sem heitir Kirkjufell og til móts við fjallið á veginum er að finna Kirkjufellsfoss.

Kirkjufell

Kirkjufellið fagra.

Þarna voru stelpurnar í essinu sínu. Þeim fannst svo gaman að sulla, fleyta kerlingar og gera blómaskransa.

Til móts við Kirkjufellið á fallegri sjávarlóð stendur veitingastaðurinn Bjargarsteinn. Þar enduðum við frábæran dag eftir flakk hingað og þangað um Snæfellsnesið og urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Fallegur og góður matur og frábær þjónusta, getið lesið nánar um þessa matarupplifun hér.

Með því að smella á myndina hér fyrir ofan getið þið opnað Google Maps og séð alla ofangreinda staði og bætt við því sem ykkur finnst þurfa eða tekið út. Ég vona innlega að þessi færsla komi til með að aðstoða ykkur við skipulag á Snæfellsnesreisu. Við fjölskyldan getum í það minnsta ekki annað en mælt með einni slíkri og við munum klárlega fara aftur þangað síðar.

Hér er síðan hægt að sjá ferðalagið á INSTAGRAM með nokkrum auka myndböndum

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun