
Þið hafið án efa tekið eftir því að mér leiðist ekkert að baka góða osta! Það er bara svo hriiiiiiiiiiiiiikalega gott að ég get ekki hætt, haha!

Innbakað ostafjall
- 1 x Dala Auður
- 2 smjördeigsplötur (keypti frosnar frá Findus, 5 í pakka)
- 1 pera
- 80 g pekanhnetur
- 3 msk. púðursykur
- 1 egg (til að pensla með)
- Affrystið smjördeigsplöturnar og undirbúið annað á meðan.
- Afhýðið peruna og skerið niður í litla teninga, saxið pekanhneturnar gróft niður.
- Setjið perur og púðursykur í pott og hitið við miðlungs hita þar til sykurinn er bráðinn og perurnar aðeins farnar að mýkjast, hrærið þá pekanhnetunum saman við.
- Setjið smjördeigsplöturnar þétt hlið við hlið og fletjið þær aðeins út og klemmið saman á samskeytunum.
- Flytjið smjördeigið yfir í eldfast mót, setjið um helminginn af perublöndunni á miðjuna, næst ostinn sjálfan þar ofan á og síðan restina af perublöndunni ofan á ostinn.
- Pakkið þessu þá öllu óreglulega inn með smjördeiginu en skiljið eftir op á toppnum.
- Pískið eggið og penslið deigið, bakið í 200°C heitum ofni í um 15 mínútur eða þar til deigið gyllist.
- Berið fram með góðu kexi eða brauði.

Dala Auður er klárlega uppáhalds osturinn minn þegar kemur að því að setja saman ostabakka, svo mjúkur, mildur og dásamlegur. Hann passar síðan einhvern vegin vel með öllu, hvort sem það er að hafa hann einan og sér, baka hann, setja hann á snittur eða, eða, eða….

Megið endilega líka fylgja Gotterí á INSTAGRAM