Þessa kökupinna gerði ég fyrir fertugsafmæli vinkonu minnar og mannsins hennar í vikunni. Mér skilst að pinnarnir hafi slegið í gegn í veislunni og ákvað því að deila þessari skemmtilegu blöndu með ykkur.
Kúlurnar sjálfar (milli 30-35 stk)
750-800gr mulin súkkulaðikaka að eigin vali (c.a eitt skúffukökuform)
150-200gr Nutella súkkulaði- og hnetusmjör
50-100gr mjög smátt saxað Milka rjómasúkkulaði með hnetum
Hjúpurinn
300-500gr suðusúkkulaði
100gr hakkaðar heslihnetur
Prik
Öllu blandað/“hnoðað“ saman og Nutella bætt útí eftir því sem þarf. Sumar kökur eru þurrari í sér en aðrar og þurfa því aðeins meira af „kremi“. Mikilvægt er að hafa kúlurnar ekki of þurrar (veist það ef þær losna saman í höndunum á þér þegar þú rúllar), né of blautar (klístrast mikið/tapa auðveldlega lögun)
Raðið kúlunum á bakka, plastið og kælið í amk 3 klst (allt í lagi að geyma þær í ísskáp yfir nótt áður en dýft er.
Þegar tími er kominn til að dýfa er gott að bræða súkkulaðið, setja smjörpappír á borðið, setja hneturnar í skál og taka til prikin, mega vera hvernig prik sem er, þessi fékk ég á veitingastað og eru þau notuð til að halda samlokum saman svo hér má hugmyndarflugið njóta sín 🙂
Best þykir mér að taka eins og 3-6 kúlur út í einu og gott er að rúlla þeim aðeins aftur áður en dýft er því þær tapa oft aðeins lögun á því að vera á flötum fleti þetta lengi. Mikilvægt er að dýfa prikinu fyrst í súkkulaðið, svo í kúluna (ekki lengra en hálfa leið) og svo allri kúlunni í einu þar strax á eftir, leyfa aukasúkkulaði að leka aftur ofaní skálina og færa pinnan yfir á smjörpappírinn þegar súkkulaðið er hætt að leka. Stráið heslihnetunum yfir áður en storknar.
Fyrir þessa tegund af pinnum þarf ekki að hafa neitt til að stinga þeim í svo það er bara að ná sér í hráefni og prik og byrja að baka og „föndra“, góða skemmtun.
One Reply to “Nutella kökupinnar á hvolfi”