Um Hvítasunnuhelgina prófaði ég í fyrsta sinn að útbúa karamellu frappó. Hann heppnaðist svona líka vel og ég veit að nokkrir vina minna bíða með eftirvæntingu eftir þessari færslu síðan ég setti mynd af herlegheitunum á Instagram.
Ég get ekki sagt ykkur hversu oft leið mín lá á Starbucks í U-Village til að kaupa einn „Salted Caramel Frappuccino“ þegar við bjuggum í Seattle og oftar en ekki fylgdi „Bacon Breakfast Sandwich“ með þeim kaupum en hana á ég eftir að reyna að útbúa.
Ég verð nú að segja frá því að ég hef fengið rosalega góðan karamellu frappó á N1 á Ártúnshöfða (og í Borgartúni á Boozt barnum). Ég sem er meira að segja með Olís lykil þarf oft mjög nauðsynlega að stoppa á N1 að taka bensín sökum þessa, hóst, hóst.
Auðvitað er frábært að geta útbúið svona drykk heima þegar gesti ber að garði eða þegar löngunin hellist yfir og grunar mig að þessi verði útbúinn ansi reglulega á þessu heimili í sumar.
Karamellu „Frappuccino“ uppskrift
Þessi uppskrift dugar í 2 glös/krúsir
- 1 bolli af köldu sterku kaffi
- 1/2 bolli ísmolar
- 150 ml nýmjólk
- 1/2 líter vanilluís
- 1 msk sykur
- 60 ml karamellusósa (uppskrift hér að neðan) og restin til skrauts.
- Þeyttur rjómi og rifið súkkulaði til skrauts.
- Allt nema ís er sett í blandara og blandað saman í um 30-60 sek á miðlungshraða.
- Ísnum er þá bætt saman við í nokkrum skömmtum og hrært á milli.
- Einni matskeið af karamellusósu dreift í hliðarnar ofarlega í glasinu svo hún leki niður.
- Drykknum skipt niður í glös.
- Vel af þeyttum rjóma sprautað yfir og rifnu súkkulaði stráð þar ofan á.
Karamellubráð
- 60 g smjör
- 110 g púðursykur
- 5 msk rjómi
Bræðið smjörið við lágan hita. Bætið púðursykrinum og rjómanum útí og hrærið á miðlungshita þar til sykurinn leysist upp. Hækkið hitann örlítið undir lokin og leyfið blöndunni að „bubbla“ í 1-2 mínútur og hrærið í allan þann tíma. Leyfið karamellbráðinni að kólna svolítið og notið svo í drykkinn.
Getið fylgst með á INSTAGRAM ef þið smellið hér!
One Reply to “Karamellu „Frappuccino“”