Frábærlega flippuð FlipperkakaÍ dag er Öskudagurinn og er skemmtileg hefð hér í Leirvogstunguhverfinu að börnin ganga í hús og syngja fyrir nammi síðdegis. Enginn þarf að fara úr hverfinu sínu og allir koma glaðir heim með fulla poka af góðgæti. Ég verð að segja að hvergi er betra að búa en hér í „sveitinni“ þar sem allir eru alltaf tilbúnir að taka þátt í svona skemmtilegheitum.

Við erum líka nokkrar mömmur sem höfum tekið okkur saman undanfarin ár og boðið öllum stelpunum í bekknum hjá miðjunni minni í Öskudagspartý að loknu nammirölti. Þá koma allar stelpurnar í bekknum saman, fá heimabakaða pizzu ala Lillý, köku og gotterí og horfa síðan á mynd.

Ég hef tekið að mér kökugerð sem kemur kannski ekki á óvart og í dag ákvað ég að prófa eitthvað skemmtilega flippað. Þar sem ég ELSKA Flipper nammi ákvað ég að búa til eitthvað einfalt en óhefðbundið og þetta varð útkoman, svona frábærlega flippuð Flipperkaka!

Kakan er 1 x Betty Crocker Devils Food Cake mix, skipt í 2 x 20 cm form. Súkkulaðismjörkrem er sett á milli og vanillusmjörkrem notað í skreytinguna að utan (hvítt grunnlag og svo alls konar litir dregnir saman yfir grunnlagið).

Ég setti stóru Flipperana á grillprik sem ég síðan braut af og stakk í kökuna. Stelpurnar eru 12 í bekknum og það rétt hafðist að koma 12 Flipperum hringinn. Síðan setti ég minni Flippera hringinn í kringum kökuna og sykurperlu á milli þeirra líkt og þeir væru að leika með bolta.

Já krakkar mínir, það þarf svo sannarlega ekki alltaf að vera flókið, ekki einn einasti sprautustútur notaður og kremið má vera skemmtilega ójafnt og einhvern veginn svo lengi sem það er nógu marglitað 🙂

Mæli með þið prófið! Þetta sló svo sannarlega í gegn hjá stelpunum í 3ÁF í Varmárskóla í dag 🙂

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun